Gísli Marteinn klórar sér í kollinum yfir nýjum rusla­tunnum borgarinnar

Gísli Marteinn Baldurs­son, sjón­varps­maður og fyrr­verandi borgar­full­trúi Sjálf­stæðis­flokksins, setur spurningar­merki við nýjar rusla­tunnur sem Reykja­víkur­borg tók ný­lega í notkun.

Veltir hann því fyrir sér hvers vegna borgin sé að skipta yfir í um­ræddar tunnur: „Þessi bláa er eins og bréfa­lúga og al­gjört vesen að henda öðru en flötu um­slagi í ruslið og gatið á grænu er líka pínu­lítið og glatað,“ segir hann á Twitter.

Út­varps­maðurinn Þor­kell Máni Péturs­son segir að þetta sé lík­lega svo að þær sóði minna í kringum sig. „Svona tunnur eru notaðar finnst mér út um allt í Evrópu. Það eru greini­lega ein­hverjar góðar pælingar á bak­við þetta,“ segir hann.

En Gísli Marteinn vill vita meira.

„Myndi samt vilja vita á­stæðuna. Sé ekki af hverju þessar ættu að vera snyrti­legri. Slatti af dóti sem kemst hrein­lega ekki inn og er skilið eftir við hlið tunnu. Óttast að þetta sé frekar til að koma í veg fyrir að ruslarar geti gramsað og fundið verð­mæti. Sem væri nastí stefna.“

Einn bendir á að bláa tunnan sé pappa­tunna og græna tunnan sé ætluð fyrir flöskur. „Að þær standi einar og sér er frekar skrýtið. Líka ó­merktar,“ segir við­komandi.