Gísli Marteinn Baldursson sjónvarpsmaður fór á kostum í lýsingu sinni á fyrra undanúrslitakvöldi Eurovision í gærkvöldi. Gísli er svo sannarlega á heimavelli þegar Eurovision er annars vegar og eiga sumir eflaust erfitt með að ímynda sér Eurovision-kvöld án hans.
Honum urðu þó á ákveðin mistök í lýsingu sinni í gærkvöldi þegar hann talaði um kynsegin þátttakanda í keppninni.
Vakin var athygli á mistökunum á minnst einni Twitter-síðu þar sem viðkomandi sagði:
„Smá hinsegin fróðleikur. Fólk "skilgreinir sig" ekki sem kynsegin, fólk er kynsegin.“
Gísli Marteinn var fljótur að bregðast við og baðst hann afsökunar á þessu í morgun.
„Afsakið þetta. Ég var að vanda mig en vissi bara ekki betur. Takk fyrir að leiðrétta mig.“
Friðrik Jónsson, formaður BHM, hittir naglann á höfuðið í athugasemd undir færslu Gísla þegar hann segir: „Við erum öll að læra.“