Björn Rúnar Lúðvíksson, yfirlæknir á ónæmisfræðideild Landspítalans, segist ekki vera sammála stefnu stjórnvalda í bóluefnamálum en hann telur að íslensk stjórnvöld hafi átt að sýna frumkvæði með því að gera samninga um kaup á bóluefni strax. Þetta kom fram í máli hans í Víglínunni á Stöð 2 í kvöld.
„Við erum svo fá. Það er mjög sorglegt að sjá það þegar við horfum á lönd eins og Ísrael, þar sem 20 af hverjum hundrað hafa verið bólusettir. Við ættum að vera þarna, við ættum að vera komin upp í 30 eða 40 af 100, og hefðum alveg getað gert það,“ sagði Björn.
„Mér finnst það sérstakt að við þurfum að hengja okkur á Evrópusambandið þegar það er yfirlýst stefna stjórnvalda að vera ekki að fylgja Evrópusambandinu,“ sagði Björn og bætti við að Íslendingar hefðu getað farið mun hraðar af stað með bólusetningar. Strax í sumar hefði verið hægt að koma á fót víðtæku bólusetningarátaki en mögulega hefðu menn ekki haft trú á að slíkt væri hægt.
Tvö bóluefni hafa nú fengið markaðsleyfi hér á landi en fyrstu skammtarnir af bóluefni Pfizer og BioNTech voru gefnir milli jóla og nýárs. Þá hefur bóluefni Moderna fengið markaðsleyfi og munu fyrstu skammtarnir koma í næstu viku.
Í heildina er búið að tryggja skammta fyrir 189 þúsund einstaklinga með þeim bóluefnum. Ísland hefur einnig tryggt sér skammta af bóluefni AstraZeneca en það hefur ekki enn fengið markaðsleyfi frá Lyfjastofnun Evrópu en íslensk yfirvöld bíða eftir samþykki frá Evrópusambandinu í bóluefnamálum.
Björn segist ekki vera viss um að Ísland sé að njóta samstarfs í þeim málum. „Þarna erum við ekki að njóta þess að vera í samfloti við Evrópusambandið, við hefðum getað gert þetta sjálf, við höfum alla burði til þess,“ sagði Björn og vísaði til þess yfirvöld hefðu getað ákveðið að fylgja Bretum eða Bandaríkjamönnum.
„Mikið svakalega hefði verið gaman að sjá þá menn grípa boltann á lofti, sýna pólitískt frumkvæði og dug og djörfung og tryggja okkur aðgang að bóluefnunum,“ sagði Bjarni en tók fram að það hefði ekki endilega átt að vera í höndum sóttvarnalæknis eða landlæknis. „Þau hafa ákveðnum verkefnum að sinna en það er pólitíkin sem hefði átt að taka þarna frumkvæði.“