Fréttablaðið greindi frá því í gær að mál íslenska knattspyrnumannsins Gylfa Þórs Sigurðssonar væri komið til saksóknaraembættis bresku krúnunnar. Eitt og hálft ár er liðið síðan Gylfi Þór var handtekinn vegna gruns um kynferðisbrot gegn ólögráða einstaklingi.
Saksóknaraembættið mun nú fara yfir gögn lögreglu og ákveða hvort tilefni sé til að gefa út ákæru eða ekki.
RÚV sagði nákvæmlega sömu frétt og Fréttablaðið í kvöldfréttum sínum og vakti myndefni fréttarinnar athygli sumra.
Glúmur Baldvinsson benti til dæmis á að í stuttri sjónvarpsfréttinni hafi Gylfi sést brenna af tveimur vítaspyrnum. Gylfi þykir býsna sparkviss og hefur skorað úr talsvert fleiri vítum en hann hefur brennt af.
„Fyrrum óskabarn þjóðarinnar og RUV Gylfi Sigurðsson klikkar á tveimur vítum í röð í beinni í fréttatíma RUV í kveld. Skilaboðin skýr frá fréttastofu allra landsmanna,“ sagði Glúmur sem telur að myndefnið hafi ekki verið valið af handahófi.