Frelsisverðlaun SUS valda usla: „Talsmaður frelsissviptinga er verðlaunaður fyrir frelsisbaráttu“

Samband ungra sjálfstæðismanna veitti sín árlegu frelsisverðlaun fyrr í vikunni, en eins og gefur að skilja veitir SUS einstaklingum eða fyrirtækjum verðlaun fyrir að stuðla að hinum ýmsu frelsismálum.

Í þetta skiptið fengu þeir Haraldur Þorleifsson, stjórnandi hjá Twitter, og Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, umrædd verðlaun. Haraldur fékk verðlaun fyrir baráttu sína í þágu bætts hjólastólaaðgengis í Reykjavík sem að sögn SUS stuðlar að auknu persónufrelsi, en Haraldur – ásamt félögum sínum – hefur nú þegar látið reisa yfir 100 rampa víðsvegar um borgina.

Þá fékk Kári Stefánsson verðlaun fyrir baráttu sína við Covid-19 veiruna en líkt og segir í tilkynningu frá SUS „greip fyrirtækið inn í og hóf skimanir fyrir Covid-19 um allt land á þeim tíma sem fyrstu tilfelli veirunnar voru að greinast hér á landi sem gerði það að verkum að hægt var að skima mjög hátt hlutfall þjóðarinnar á skömmum tíma.“ Þá segir enn fremur að framlag einkaaðila á borð við Íslenska erfðagreiningu undirstriki mikilvægi öflugs einstaklingsframtaks innan heilbrigðiskerfisins, að sögn SUS.

Netverjar – sér í lagi hægrimenn og ákveðnir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins – eru ekki allskostar sáttir við þessi verðlaun. Fáir gera athugasemd við að Haraldur hljóti verðlaun, en töluvert meiri óánægja er með verðlaunaveitingu Kára.

Jón nokkur Ingimarsson segir á Twitter: „Kári Stefánsson? Er hann boðberi frelsis?“Hann bætir við:„Stuttbuxnadeildin búin að gleyma því að Kári Stefánsson lagði til að ferða- og verslunarfrelsi hinna óbólusettu yrði takmörkuð?“

Twitter-aðgangur sem gengur undir nafninu Sóttólfur segir kalfhæðnislega að SUS hafi „gleymt“ að veita Gylfa Þór umsjónarmanni sóttvarnarhótelsins frelsisverðlaun: „Það er bara eins og Ungir XD hafi gleymt okkar besta manni í þessum „frelsis“ verðlaunum þeirra. Gylfi Þór fangavörður í ólöglega sóttvarnarfangelsinu er gáttaður á þessu.“

Þá segir deilir Þórður Pálsson einfaldlega tísti SUS og bætir ælukalli við. Sigríður Á. Andersen fyrrverandi ráðherra og þingkona Sjálfstæðisflokksins svarar honum og segir: „#frelsiðtapastsjaldanalltíeinu en þegar talsmaður frelsissviptinga er verðlaunaður fyrir frelsisbaráttu er stórt skref stigið.“

Inni á hópnum Frjálshyggjufélagið á Facebook sköpuðust sömuleiðis nokkrar umræður um umrædd frelsisverðlaun.

Þar segist meðal annars Geir Andersen, fyrrum stjórnarmaður í SUS, hafa miklar áhyggjur af þróun SUS „sem hefur yfirleitt verið akkeri einstaklingsfrelsisins, frjálslyndis, athafnalífs og jú allra sem vilja lifa lífinu á sínum forsendum,“ segir Geir.

Hann segir töluverðar breytingar hafa orðið þar á: „Á síðustu misserum hafa orðið töluverðar breytingar, þar sem mér finnst bæði Sjálfstæðisflokkurinn og SUS hafa misst sjónar á sínum grunngildum,“ segir Geir.

Grunngildin séu „að standa vörð um einstaklinginn og hans frelsis til að lifa sínu lífi á sínum forsendum,“ segir Geir. Þess í stað hafi Sjálfstæðisflokkurinn og SUS „látið populisma og pólitískan rétttrúnað ráða för, á meðan þeir eiga akkurat að halda áfram að halda þeirri hugmyndafræði á lofti að ekkert samfélag er til án einstaklingsins, og því skiptir einstaklingurinn sjálfur öllu máli til þess að allir fái að njóta sín á sínum forsendum,“ segir Geir.