Föst í Keflavík með þriggja mánaða gamalt barn

Móðir nokkur er föst á hóteli í Keflavík ásamt manninum sínum og þriggja mánaða gömlu barni sínu vegna veðurs. Þau lentu í Keflavík eftir miðnætti í nótt.

Þau áttu von á því að fá bílinn sinn frá lagningarfyrirtæki en bíllinn er fastur á bílaplani fyrirtækisins. Þeim var bent á að þau þyrftu að redda sér sjálf og hafa ekki fengið svör um hvenær og hvernig á að leysa það.

Eins og fram hefur komið er Reykjanesbrautinni lokað vegna veðurs. Þá hefur öllum flugferðum verið frestað.

Hún lýsir ástandinu í Facebook færslu. „Eftir 3 tíma endalausar hringingar á allskonar staði fengum við taxa. Þegar hann var nýkominn fyrir utan flugstöðina lokaði Reykjanesbrautin. Flest hótel uppbókuð og enn verra veðri spáð - náðum loksins herbergi á hóteli í Keflavík og fengum taxa þangað.“

„Við höfum herbergið til hádegis. Við erum með 3ja mánaða gamalt barn og þurfum nauðsynlega að komast heim,“ skrifar konan sem spyr hvort einhver þekki einhvern sem geti hjálpað eða er með hugmyndir um það hvernig hægt sé að leysa úr þessu.