Ferða­menn fá miklu færri krónur fyrir gjald­eyri í Leifs­stöð: „Þetta gengi er galið“

Eini bankinn sem býður upp á banka­þjónustu í Leifs­stöð er Arion banki. Hann starfar á grund­velli samnings við Isavia, sem gerður var í kjöl­far út­boðs. Þessi samningur rennur út um ára­mót og fljót­lega verður hafinn undir­búningur nýs út­boðs. Þetta kemur fram í frétt Frétta­blaðsins í morgun.

Í al­mennum úti­búum og hrað­bönkum hleypur munur á kaup- og sölu­gengi gjald­eyris í seðlum á bilinu ríf­lega 4 prósent og upp í ríf­lega 8 prósent. Minnstur er munurinn hjá Ís­lands­banka og mestur hjá Arion banka.

Þetta birtist í því að Arion banki greiðir færri krónur fyrir er­lendan gjald­eyri sem bankinn kaupir af við­skipta­vinum og rukkar fleiri krónur fyrir gjald­eyri sem hann selur. Frétta­blaðið bar saman kaup- og sölu­gengi fjögurra gjald­miðla (Banda­ríkja­dals, evru, sterlings­punds og danskrar krónu) um miðjan dag í gær og í öllum til­vikum var ó­hag­stæðast að skipta seðlum hjá Arion banka.

Mikill munur reyndist hins vegar á seð­la­genginu í al­mennum úti­búum og hrað­bönkum Arion banka annars vegar og í úti­búi bankans í Leifs­stöð hins vegar. Sölu­gengið var um það bil 2,25 prósentum hærra í Leifs­stöð og kaup­gengið um það bil 1,8 prósentum lægra. Mis­munur kaup- og sölu­gengis í Leifs­stöð reyndist um 12,2 prósent að jafnaði, eða meira en helmingi meiri en í al­mennum úti­búum bankans.

Haraldur Guðni Eiðs­son, upp­lýsinga­full­trúi Arion banka, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að í al­mennum úti­búum og hrað­bönkum gildi al­menn sam­keppnis­lög­mál og stundum sé verð hjá Arion banka lægra en keppi­nauta og stundum hærra.

Varðandi verð­lagningu í Leifs­stöð segir Haraldur Guðni starf­semi úti­bús bankans og hrað­banka þar vera á grund­velli út­boðs og rekstrar­kostnaður þar sé meiri en í öðrum úti­búum bankans. Því valdi meðal annars kvöð um að þjónusta bankans sé að­gengi­leg allan sólar­hringinn, auk þess sem gjald­kera­þjónusta sé á­vallt til staðar þegar á­ætlunar­flug er í gangi, sem um þessar mundir sé nánast allan sólar­hringinn.

Hann segir að á grund­velli út­boðsins greiði bankinn gjald fyrir að vera með úti­bú í flug­stöðinni, al­gengt sé að gjald­taka vegna gjald­eyris­við­skipta sé hærri innan flug­stöðva en utan þeirra.

Frétta­blaðið leitaði eftir á­liti Breka Karls­sonar, formanns Neyt­enda­sam­takanna, á verð­lagningu gjald­eyris í Leifs­stöð og segir hann þessi mál vera í skoðun hjá sam­tökunum. „Þetta gengi í Leifs­stöð er galið,“ segir hann.

Kaupi ferða­maður gjald­eyri í Leifs­stöð getur gengið verið nær fjórum prósentum hærra en lægst er í boði annars staðar. Bankar rukka gjarnan gjald þegar tekið er út fé með kortum sem út­gefin eru af öðrum bönkum. Það gjald er gjarnan um eitt prósent. Því getur það borgað sig, jafn­vel fyrir við­skipta­vini Arion banka, að kaupa gjald­eyrinn þar sem hann er ó­dýrastur. Sé keyptur gjald­eyrir fyrir 50 þúsund krónur geta sparast allt að tvö þúsund krónur.

Sam­kvæmt upp­lýsingum frá Isavia hefst fljót­lega undir­búningur nýs út­boðs um banka­þjónustu í flug­stöðinni frá og með ára­mótum.