Eini bankinn sem býður upp á bankaþjónustu í Leifsstöð er Arion banki. Hann starfar á grundvelli samnings við Isavia, sem gerður var í kjölfar útboðs. Þessi samningur rennur út um áramót og fljótlega verður hafinn undirbúningur nýs útboðs. Þetta kemur fram í frétt Fréttablaðsins í morgun.
Í almennum útibúum og hraðbönkum hleypur munur á kaup- og sölugengi gjaldeyris í seðlum á bilinu ríflega 4 prósent og upp í ríflega 8 prósent. Minnstur er munurinn hjá Íslandsbanka og mestur hjá Arion banka.
Þetta birtist í því að Arion banki greiðir færri krónur fyrir erlendan gjaldeyri sem bankinn kaupir af viðskiptavinum og rukkar fleiri krónur fyrir gjaldeyri sem hann selur. Fréttablaðið bar saman kaup- og sölugengi fjögurra gjaldmiðla (Bandaríkjadals, evru, sterlingspunds og danskrar krónu) um miðjan dag í gær og í öllum tilvikum var óhagstæðast að skipta seðlum hjá Arion banka.
Mikill munur reyndist hins vegar á seðlagenginu í almennum útibúum og hraðbönkum Arion banka annars vegar og í útibúi bankans í Leifsstöð hins vegar. Sölugengið var um það bil 2,25 prósentum hærra í Leifsstöð og kaupgengið um það bil 1,8 prósentum lægra. Mismunur kaup- og sölugengis í Leifsstöð reyndist um 12,2 prósent að jafnaði, eða meira en helmingi meiri en í almennum útibúum bankans.
Haraldur Guðni Eiðsson, upplýsingafulltrúi Arion banka, segir í samtali við Fréttablaðið að í almennum útibúum og hraðbönkum gildi almenn samkeppnislögmál og stundum sé verð hjá Arion banka lægra en keppinauta og stundum hærra.
Varðandi verðlagningu í Leifsstöð segir Haraldur Guðni starfsemi útibús bankans og hraðbanka þar vera á grundvelli útboðs og rekstrarkostnaður þar sé meiri en í öðrum útibúum bankans. Því valdi meðal annars kvöð um að þjónusta bankans sé aðgengileg allan sólarhringinn, auk þess sem gjaldkeraþjónusta sé ávallt til staðar þegar áætlunarflug er í gangi, sem um þessar mundir sé nánast allan sólarhringinn.
Hann segir að á grundvelli útboðsins greiði bankinn gjald fyrir að vera með útibú í flugstöðinni, algengt sé að gjaldtaka vegna gjaldeyrisviðskipta sé hærri innan flugstöðva en utan þeirra.
Fréttablaðið leitaði eftir áliti Breka Karlssonar, formanns Neytendasamtakanna, á verðlagningu gjaldeyris í Leifsstöð og segir hann þessi mál vera í skoðun hjá samtökunum. „Þetta gengi í Leifsstöð er galið,“ segir hann.
Kaupi ferðamaður gjaldeyri í Leifsstöð getur gengið verið nær fjórum prósentum hærra en lægst er í boði annars staðar. Bankar rukka gjarnan gjald þegar tekið er út fé með kortum sem útgefin eru af öðrum bönkum. Það gjald er gjarnan um eitt prósent. Því getur það borgað sig, jafnvel fyrir viðskiptavini Arion banka, að kaupa gjaldeyrinn þar sem hann er ódýrastur. Sé keyptur gjaldeyrir fyrir 50 þúsund krónur geta sparast allt að tvö þúsund krónur.
Samkvæmt upplýsingum frá Isavia hefst fljótlega undirbúningur nýs útboðs um bankaþjónustu í flugstöðinni frá og með áramótum.