Enn ber á því að verið sé að losa dekk á hjólum barna hér á landi. Afleiðingarnar geta orðið skelfilegar og hafa frásagnir af slysum meðal annars ratað í fjölmiðla hér á landi.
Forsvarsmenn Kársnesskóla sögðu frá því á Facebook-síðu skólans í gær að dekk á reiðhjólum nemenda við skólann hefðu verið losuð.
„Við getum ekki lagt nógu mikla áherslu á hversu alvarlegt það er að eiga við annarra manna eigur með þessum hætti og mjög alvarleg og hættuleg slys hafa hlotist vegna þessa!! Við biðjum fólk að taka umræðuna við börnin sín um afleiðingar og hættuna við þetta athæfi - hjól eiga að vera í friði við skólann,“ segir í færslunni.
Björg Baldursdóttir, skólastjóri Kársnesskóla, segir við fréttavef RÚV að sem betur fer hafi ekki orðið alvarlegt slys. „Viðkomandi nemandi meiddist ekki, en vissulega hefði getað orðið stórslys enda er þetta ofboðslega hættulegt,“ segir hún.
Það er ekki bara í Kópavogi sem þetta hefur gerst nýlega. Íbúi í Hafnarfirði varaði við því á Facebook-síðu íbúa Vallahverfis að skrúfa við framdekk á hjóli dóttur hennar hefði verið losuð. „Hún datt af hjólinu þegar dekkið losnaði en meiddi sig sem betur fer ekki mikið. Vildi láta vita af þessu hér svo við séum öll vakandi fyrir þessu og hægt sé að brýna fyrir börnunum að fara varlega.“
Steinar Kjartansson benti á einfalda aðferð þar sem hann sýndi hvernig hægt er að koma í veg fyrir stórslys af völdum þessa hrekks.
„Með því að herða plastbensli yfir arminn á rónni má jafnvel koma í veg fyrir að hún sé losuð en í öllu falli ætti að vera augljóst ef átt hefur verið við hana. Þessi plastbensli fást í flestum byggingavöru verslunum, í rafmagnsdeildinni, enda er þetta mikið notað af rafvirkjum. Stærri gerðirnar af þessu eru mjög sterkar. Ég hef sett svona á hjólið hjá syni mínum og beðið hann um að fylgjast með hvort þetta sé ekki óhreyft áður en hann notar hjólið,“ sagði Steinar í færslu sem vakti mikla athygli.
Steinar lét fylgja mynd með færslunni sem skýrir lausnina betur.
