Elísabet Þorgeirsdóttir, forsprakki MeToo-hóps um Jón Baldvin Hannibalsson, segir að það að njóta sannmælis sé að vera dæmdur af verkum sínum og það muni sagan gera við Jón Baldvin eins og aðra.
Elísabet skrifar langa grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag en þar svarar hún umdeildri grein Jóns Baldvins sem birtist í blaðinu fyrir skemmstu og Hringbraut gerði meðal annars skil. Í grein sinni, sem bar yfirskriftina Að njóta sannmælis? bar Jón Baldvin hönd fyrir höfuð sér eftir umfjöllun Stundarinnar sem unnin var upp úr dagbókarskrifum Þóru Hreinsdóttur, fyrrverandi nemanda hans í Hagaskóla.
Elísabet segir að Jón fari býsna frjálslega með sannleikann í grein sinni, níði niður dóttur sína og MeToo-hópinn sem sagði „sannleika“ sinn um hann eins og hún segir.
„Grein Jóns veitir áhugaverða innsýn í hugarheim karls af hans kynslóð, sem ber ekkert skynbragð á hvað hann hefur gert. Það virðist ekki hafa snert hann á neinn hátt að sjá sjálfan sig með augum unglingsins sem á viðkvæmum tíma í lífi sínu gekk í gildruna sem hann lagði fyrir hana og trúir dagbók sinni fyrir raunum sínum. Hann finnur ekki til neinnar sektar þótt Stundin birti handskrifað bréf hans til Þóru með ástarórum og upphafningu á fegurð æskunnar. Samviska hans er hrein eins og himinbláminn.“
Elísabet heldur áfram:
„Jón Baldvin sér enga ástæðu til að viðurkenna að hann hefði átt að sýna ábyrgð sem kennari og hemja girnd sína gagnvart Þóru og fleiri stúlkum í Hagaskóla sem hafa sagt sögu sína. Sjálf hef ég sömu reynslu sem nemandi við Menntaskólann á Ísafirði og er aðferðin sem Þóra lýsir mjög lík því sem ég upplifði. Ég var í mörg ár að byggja mig upp eftir það niðurbrot sem ég varð fyrir í samskiptum mínum við skólameistarann. Sögu mína má lesa á síðunni metoo-jonbaldvin.blog.is undir heitinu „18 ára nemandi í MÍ“.“
Hún bætir við að dagbók Þóru ætti að vera skyldulesning fyrir kennara og kennaranema sem víti til varnaðar. Hún sýni mjög vel hvaða afleiðingar samskipti af þessu tagi geta haft á sálarlíf þolenda.
Hún spyr svo hvað það er að njóta sannmælis eins og Jón Baldvin veltir fyrir sér í grein sinni.
„Jón Baldvin krefst sannmælis fyrir sína hönd um leið og hann fer með rangfærslur um dóttur sína. Hvenær á hún að fá að njóta sannmælis? Gamlir vinir hans hafa verið iðnir við að verja hann, segja að honum sé útskúfað, merkur stjórnmálaferill hans sé ekki virtur, hann sé hataður af femínistum í HÍ og Samfylkingunni. Þeir hafa að sjálfsögðu rétt til að standa með vini sínum en það sem þeir vísa til hefur Jón Baldvin skapað sér sjálfur. Það að njóta sannmælis er að vera dæmdur af verkum sínum og það mun sagan gera við Jón Baldvin eins og aðra.“