Fjölmiðlakonan Elín Hirst skrifar hjartnæman pistill í Fréttablaðinu í dag um einelti.
„Grimmilegt einelti sem Ísabella Von Sædísardóttir, 12 ára, hefur orðið að þola sem endaði með því að hún reyndi að svipta sig lífi hefur vakið þjóðarathygli.
Sem betur fer náðu neyðaróp Ísabellu og Sædísar móður hennar eyrum almennings. Þannig varð á allra vitorði hið hatramma einelti sem stúlkan varð fyrir þar sem jafnaldrar óskuðu henni jafnvel dauða. Börnin sem eru gerendur í þessu máli þarfnast líka sárlega hjálpar,“ skrifar Elín.
„Sædís móðir Ísabellu kom fram í Bítinu á Bylgjunni og lýsti því sem dóttir hennar hefur orðið að þola. Fréttastofa RÚV fylgdi svo í kjölfarið með viðtali við Ísabellu sem sýndi einstakt hugrekki með því að segja sögu sína frammi fyrir alþjóð.
Fjölmiðlar eiga hrós skilið fyrir að birta þessi viðtöl því að brýna nauðsyn bar til að upplýsa þjóðina um alvarleika málsins. Það er einnig í takt við það sem þeir sem starfa að velferðarmálum barna segja, að besta leiðin til að skapa betra samfélag fyrir börn sé að hlusta á þau,“ bætir hún við.
Elín segir að hatursorðræða gagnvart íslenskum börnum af öðrum kynþætti sé að sama skapi óþolandi plága.
„Önnur íslensk ofurhetja, Sóley Lóa Smáradóttir, 15 ára, kom fram í fjölmiðlum á dögunum og sagði frá sárri reynslu sinni af rasisma í skólanum. Hún hefur oft verið kölluð niðrandi orðum og kennara einum fannst sjálfsagt að hún fræddi skólafélaga sína um Afríku, en hún var ættleidd hingað til landsins frá Tógó aðeins fárra mánaða. Sóley segir að ef hún kvarti við skólayfirvöld sé henni hlýlega tekið en síðan sé ekkert gert,“ skrifar Elín.
„Árið 2011 tók ellefu ára gamall drengur, Dagbjartur Heiðar Arnarsson, líf sitt vegna eineltis. Foreldrar Dagbjarts hafa kosið að ræða opinskátt um eineltið sem eyðilagði líf drengsins. Þau vonuðu í hjarta sér að örlög hans myndu leiða til róttækra breytinga í eineltismálum, þannig hefði Dagbjartur ekki dáið til einskis. Erla Kaja Emilsdóttir, móðir Dagbjarts, sagði í samtali við Fréttablaðið að því miður hefði lítið breyst í eineltismálum hér á landi á þeim ellefu árum sem liðin eru síðan Dagbjartur lést. Öll þjóðin þarf að leggjast á árarnar til að uppræta þetta þjóðarmein. Vonandi eigum við líka ráðamenn með hjartað á réttum stað sem svara ákalli Ísabellu Vonar, Sædísar, Erlu Kaju, Sóleyjar Lóu og fleiri,“ skrifar Elín.
„Kærleikur fólks og stuðningur er sem betur fer ekki langt undan, þegar illskan gengur fram af fólki. Fjöldi ungmenna hefur beðið Ísabellu afsökunar eftir að viðtölin við hana og móður hennar birtust. Börn og fullorðnir senda þeim hlý skilaboð, hringja og koma við og safna fé og gefi alls kyns hluti,“ skrifar Elín að lokum.