„Við hjónin festum kaup á metantvinnbíl síðastliðið sumar og höfum frá því ekki notað dropa af bensíni því metan er jú talsvert ódýrara.“
Þetta segir Úrsúla Jünemann, kennari á eftirlaunum og leiðsögumaður, í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag. Þar skrifar hún um metanbíla og veltir fyrir sér hvers vegna jafn fáir metanbílar eru á götum landsins og raun ber vitni.
Sjálf hafa Úrsúla og eiginmaður hennar notað metantvinnbíl og er bensínið aðeins notað í neyð. „Það eru nefnilega bara fimm metanstöðvar á landinu, fjórar í Reykjavík og ein á Akureyri, þannig að í lengri ferðum gæti maður lent í vandræðum.“
Úrsúla bendir á að nú líði senn að því að gas- og jarðgerðarstöðin í Álfsnesi komist í gagnið. Því beri að fagna enda mjög í þágu umhverfisins að búa til nýtanleg efni úr afgöngum og rusli.
„Það er hægt að vinna metan af sorphaugum og nýta sem eldsneyti. Þetta efni er til staðar þarna. En eins og stendur verður mest af metaninu sem er unnið í Sorpu brennt, til að minnka slæmu áhrifin. Heimskulegt? Mér finnst það,“ segir Úrsúla og bætir við að menn hafi leitað ýmissa leiða til að finna aðra orkugjafa en jarðeldsneyti.
Hún segir að aðeins 1.900 metanbílar séu á götunum hér á landi og fókusinn hafi að stærstum hluta farið á rafmagnsbílana. Þeir séu kannski ekki eins umhverfisvænir og margir láta í veðri vaka. Það þurfi að framleiða rafmagn og til að búa til rafmagn þurfi stundum að eyðileggja stór landsvæði og skemma náttúruperlur.
„Metan verður hins vegar til úr rusli og þarf ekki að framleiða. Metanbílar eru ódýrari í framleiðslu og minni vandræði að farga þeim heldur en rafmagnsbílum. Rafhlöður þeirra innihalda mikið af mengandi efnum. Þannig að maður skilur ekki alveg hvers vegna metanbílum er ekki gert hærra undir höfði og menn ekki hvattir til að snúa sér að slíkum farartækjum. En í staðinn var bónusinn tekinn af metanbílum og þeir eru ekki lengur tilgreindir sem vistvænir. Þannig að metan-tvinnbílar fá ekki lengur ókeypis bílastæði í Reykjavík.“
Í fréttahluta Fréttablaðsins í dag er fjallað um metanbíla og rætt við Jón Trausta Ólafsson, formann Bílgreinasambandsins. Hann segir að mjög hafi dregið úr áhuga fólks- og vörubílaframleiðenda á að bjóða metanbíla og sumir hafi hætt að þróa þá.
Þá kemur fram í fréttinni að þótt metan hafi að sumu leyti mjög góð áhrif á umhverfið sé ekki hægt að segja að hérlendis sé allt til staðar til að metanvæða bílaflotann. Þótt talsvert hafi verið lagt í vinnslu á hauggasi og vinnslu á metani úr því, eru metanstöðvar fáar eins og Úrsúla bendir á í grein sinni.