Egill ó­sáttur: Gæðingar fá kort en leik­skóla­starfs­menn ekki - Út­valdir drekka fyrir hundruð þúsunda

„Klúbb­kortunum virðist síst hafa verið dreift til þeirra borgar­starfs­manna sem helst þurfa að sætta sig við bága fundar­að­stöðu, t.d. starfs­fólks leik­skóla,“ segir Egill Þór Jóns­son, borgar­full­trúi Sjálf­stæðis­flokksins, í að­sendri grein í Morgun­blaðinu í dag.

Þar skrifar Egill um Vinnu­stofu Kjarvals við Austur­völl en eins og Frétta­blaðið greindi frá á dögunum drakk yfir­stjórn og starfs­menn Reykja­víkur­borgar á­fengi fyrir meira en hálfa milljón króna. Egill er mjög gagn­rýninn á þetta fyrir­komu­lag og segir að Dagur B. Eggerts­son borgar­stjóri hafi út­hlutað gæðingum innan borgar­kerfisins klúbb­kortum að Vinnu­stofu Kjarvals. Fyrr á árinu var aug­lýst að út­svars­greið­endur í Reykja­vík hefðu greitt 1,6 milljónir króna fyrir klúbb­kortin.

„Á vinnu­stofunni er aug­lýst góð að­staða til sam­komu­halds, léttar veitingar í boði og að opið sé fram yfir mið­nætti um helgar. Mark­miðið er sagt vera „að bæta vinnu­að­stöðu starfs­fólks og tryggja að­gang að fundar­að­stöðu utan stjórn­sýslu­bygginga á hag­kvæmu verði“. Í sumar var sagt að um til­rauna­verk­efni væri að ræða, nú er það kallað þróunar­verk­efni.“

Egill gefur lítið fyrir þau orð borgar­stjóra að verk­efnið hefði að líkindum leitt til sparnaðar fyrir borgina.

„Allir sjá þó að auð­vitað sparast ekkert með því að flytja fundi úr eigin hús­næði, sem ekki þarf að borga fyrir, á veitinga­stað úti í bæ. Af hverju er það for­gangs­mál borgar­stjóra að tryggja völdum borgar­starfs­mönnum fundar­að­stöðu hjá einka­klúbbi? Reykja­víkur­borg á og rekur um 600 byggingar og eru fjöl­margar þeirra með góðri að­stöðu fyrir fundi og annað sam­komu­hald,“ segir hann. Bætir hann við að starfs­menn í efsta lagi stjórn­sýslunnar hjá borginni, þeir starfs­menn sem hafa að­stöðu í Ráð­húsinu og Höfða­torgi við Borgar­tún þar sem enginn skortur er á fundar­her­bergjum hafi notið kortanna.

„Skiljan­legt er að borgar­starfs­menn vilji stundum leita út fyrir dag­legan vinnu­stað sinn til funda­halda, t.d. vegna teymis­vinnu eða starfs­dags. En í þeim til­vikum standa til boða af­not af ó­teljandi fundar­her­bergjum Reykja­víkur­borgar sem mörg hver eru lítið nýtt. Úr­vals fundar­að­staða er í öllum stjórn­sýslu­byggingum borgarinnar auk góðra fundar­sala í grunn­skólum, menningar­mið­stöðvum, fé­lags­mið­stöðvum, frí­stunda­mið­stöðvum og borgar­fyrir­tækjum. Af hverju hentar vín­veitinga­staður úti í bæ betur til slíkra funda og við­tala en fjöl­mörg fundar­her­bergi borgarinnar af öllum stærðum og gerðum,“ spyr Egill sem segir svarið liggja í augum uppi.

„Nú er komið svar við þessari spurningu. Svarið er Hennes­sy VSOP, Moscow Mule, Lagavulin (16 ára) og Chardonnay. Út­valdir yfir­menn og starfs­menn borgarinnar hafa drukkið á­fengi fyrir hundruð þúsunda króna á Vinnu­stofu Kjarvals og eru áður­nefndar vín­tegundir þar á meðal. Þá var tug­þúsunda króna á­fengis­reikningur endur­greiddur í of­boði eftir að Frétta­blaðið spurðist fyrir um málið.“

Egill bendir á að hjá Reykja­víkur­víkur­borg hafi sú regla lengi gilt við á­fengis­veitingar að ekki megi veita sterkt vín heldur einungis létt­vín og bjór.

„En í Frétta­blaðinu sl. laugar­dag lýsti Dagur borgar­stjóri yfir vel­þóknun sinni á því að vodka, koníak og 16 ára gamalt viskí væru veitt á kostnað borgarinnar á Vinnu­stofu Kjarvals og sagði að um­rædd á­fengis­kaup væru „til marks um á­byrgð og hóf­semi“. Áður­nefnd „létt­víns­regla“ gildir því greini­lega ekki lengur. Væntan­lega fá nú allir borgar­starfs­menn að njóta þessara guða­veiga í teymis­vinnu sinni en ekki bara gæðingar borgar­stjóra.“