Edda Péturs stígur inn í deiluna og birtir skjá­skot af sam­skiptum sínum við Frosta

Edda Péturs­dóttir, fyrr­verandi kærasta Frosta Loga­sonar segist hafa sagt fjöl­miðla­konunni Eddu Falak að svara ekki á­sökunum Frosta en hann birti opið bréf til Heimildarinnar í dag, sem Edda starfar á.

Frosti fór mikinn á dögunum þegar hann sakaði Eddu um ýmis ó­­sannindi í við­­tölum í gegnum tíðina. Þannig sagði hann Eddu ekki hafa komið hreint og beint fram varðandi fyrri störf sín. Hún hafi ekki unnið í verð­bréfa­miðlun hjá virtum banka eða hjá lyfjarisanum Novo Nor­disk.

Edda hefur verið á­berandi undan­farin ár í bar­áttu sinni gegn kyn­bundinni á­reitni og of­beldi. Hún hefur haldið úti hlað­varpinu Eigin konur undan­farin ár, en ný­lega var til­kynnt að Edda myndi stýra nýjum þáttum á Heimildinni sem munu ein­fald­lega kallast Edda Falak.

Frosti og Edda hafa eldað grátt silfur saman undan­farin ár efti að Edda Péturs­dóttir, steig fram í við­tali við hlað­varpið Eigin konur–og bar Frosta þungum sökum. Hann gekkst við á­sökunum að hluta til.

Síðustu daga hefur Frosti beint spjótum sínum að Eddu Falak og sakað hana um ó­sannindi. Í opna bréfi sínu í dag segir Frostiað Edda hafi fyrst vakið at­hygli þegar hún steig fram sem þolandi kyn­bundinnar á­reitni þegar hún starfaði og bjó í Kaup­manna­höfn.

„Sagðist hún hafa legið undir á­­mælum og niðrandi at­huga­­semdum frá sam­­starfs­­mönnum í stórum virtum banka, vegna nær­fata og bikíni­mynda sem hún birti á sam­­fé­lags­­miðlum á sama tíma og hún miðlaði með verð­bréf í bankanum. Þá sagðist hún einnig hafa upp­­lifað sömu fram­komu þegar hún vann í fjár­­mála­­deild lyfja­­fyrir­­­tækisins Novo Nor­disk í sama landi á svipuðum tíma,“ segir Frosti í bréfinu.

Edda Péturs­dóttir sagði í við­tali hjá Eddu í fyrra að hún hafi lifað í stöðugum ótta í tæpan ára­tug vegna hótanna Frosta. Hún gefur lítið fyrir skýringar hans í málinu og segir hann trúa því sem hann vill trúa.

„Ég sagði Eddu Falak að svara FL ekki. Ég hef upp­­lifað þetta sjálf frá honum, að vera krafin svara í­trekað. En svörin skiptu ekki máli, hann trúir bara því sem hann vill trúa og krefst ÞESS. Hann neitar al­farið að heyra og með­­taka sann­­leikann,“ skrifar Edda Péturs­dóttir og birtir skjá­skot af sam­skiptum sínum við Frosta.