Dóttir Einars lét hann heyra það: „Elsku pabbi eyddu þessu, þetta er glataður slagur að taka“

Rithöfundurinn Einar Kárason olli talsverðu fjaðrafoki um helgina þegar hann tók upp hanskann fyrir rithöfundinn J.K Rowling sem er einna þekktust fyrir að hafa skrifað Harry Potter-bækurnar.

Einar skrifaði á Facebook:

„Það er mjög fín grein í Morgunblaði helgarinnar um rithöfundinn J.K. Rowling og þá slaufunar- og hatursherferð sem hún hefur mátt sæta fyrir að viðra sjónarmið sem í allri sanngirni verða að teljast skiljanleg,“ segir Einar.

Það sem Einar vísar þarna til eru ýmis ummæli J.K. Rowling um transfólk sem margir hafa túlkað sem transfóbíu. Hefur hún meðal annars mótmælt kynlausri orðanotkun og gagnrýnt það að transkonum sé til dæmis veittur aðgangur að búningsklefum svo fátt eitt sé nefnt. Hefur J.K. Rowling verið gagnrýnd harðlega og hafa margir hvatt til þess að fólk sniðgangi bækur hennar.

„Merkilegt er að ýmis rithöfundafélög og samtök sem eiga að standa vörð um frjálsa tjáningu hafa ekki stutt hana í þeirri herferð, jafnvel með morðhótunum, sem hún hefur mátt þola. Í sumum rithöfundasamtökum er jafnvel komið til áhrifa fólk sem hefur tjáð velþóknun á árásum gegn Rowling, en um leið verða slík samtök ekki aðeins gagnslaus sem baráttutæki fyrir viðgangi bókmennta, heldur beinlínis skaðleg þeim,“ segir Einar í færslu sinni.

Óhætt er að segja að athugasemdakerfið á Facebook-síðu Einars hafi logað eftir þetta. Margir hafa tekið undir með Einari á meðan aðrir hafa gagnrýnt hann harðlega.

Inga Straumland, formaður Siðmenntar, segist hafa fylgst vel með málinu og kveðst vera virkilega ósammála Einari.

„Mér finnst hún nota völd sína, stöðu og rödd til að berjast gegn réttindum og virðingu trans fólks. Það hefur algjörlega eyðilagt bækurnar hennar fyrir mér, sem ég var hér á árum áður þekkt fyrir að vera aðdáandi og kom fram í fjölmörgum fjölmiðlaviðtölum sem sérstakur fulltrúi HP-aðdáenda, og mér finnst algjörlega réttmætt að hún sé dregin til ábyrgðar á þann hátt sem neytendur geta: með því að hætta að gefa henni rödd og hafna verkunum hennar.“

Júlía Margrét Einarsdóttir, rithöfundur og dóttir Einars, var einnig í hópi þeirra sem skrifuðu athugasemd við færsluna. Það er skemmst frá því að segja að hún hafi látið föður sinn vita að hún væri ósammála.

„Transfóbía er engu skárri en rasismi, kvenhatur eða hómófóbía, sem dæmi. Elsku pabbi eyddu þessu, þetta er glataður slagur að taka.“