Davíð segir RÚV beita óeðlilegum aðfeðrum: „Brotið var mjög alvarlegt“

Í leiðara Morgunblaðsins í dag er fjallað um Ríkisútvarpið. Leiðari blaðsins er ekki stílaður á neinn tiltekinn einstakling, en oft eru líkur leiddar að því að það sé ritstjóri og ábyrgðarmaður blaðsins, Davíð Oddsson, sem haldi á pennanum.

Sérstaklega er fjallað í RÚV í samhengi við lög, en ríkisfjölmiðillinn er sakaður um að virða þau að vettugi. Til að mynda er bent á að um RÚV séu til sérstakar reglur, og vegna þess spyr Davíð: „Gætir stofnunin sín sérstaklega að fara að lögum?“ – En hann svara spurningunni fljótlega sjálfur:

„Ekkert bendir til að svo sé, nema síður sé. Ríkisútvarpið hefur um árabil og ítrekað orðið uppvíst að því að brjóta gegn þeim lögum sem um það gilda. Um þetta hefur verið fjallað áður hér á þessum vettvangi,“

Þá er minnst á sérstakt brot RÚV er varðaði auglýsingu í tengslum við Krakkafréttir.

„Þetta brot, líkt og sum önnur, virðist stafa af því að Ríkisútvarpið telur sjálfsagt að það dansi almennt á mörkum hins löglega, sé sífellt að láta reyna á mörkin í stað þess að taka þá afstöðu að vera örugglega réttum megin laganna, eins og sjálfsagt er að krefjast af opinberri stofnun sem árlega fær milljarða króna frá skattgreiðendum.“

Í kjölfarið er minnst á fleiri brot RÚV, en Davíð telur eitt tiltekið brot sérstaklega alvarlegt, en það varðaði ófullnægjandi birtingar gjaldskrár fyrir auglýsingar og kostanir í tengslum við heimsmeistaramót karla í knattspyrnu, HM 2018 á RÚV.

„Síðastnefnda brotið var mjög alvarlegt gagnvart öðrum á markaðnum þó að það hljómi sakleysislega í niðurstöðu Fjölmiðlanefndar. Þá var sektin sem Ríkisútvarpinu var gert að greiða smávægileg miðað við tjónið sem stofnunin olli öðrum á markaðnum og miðað við þann ávinning sem hún hafði af lögbrotinu. Þetta er raunar gegnumgangandi með þær sektir sem lagðar eru á stofnunina, þær eru það lágar að þær hafa engin áhrif á brotaviljann.“

Þá er því haldið fram að síðan hafi Ríkisútvarpið haldið uppteknum hætti.

„Þær aðferðir sem Ríkisútvarpið beitir í þeirri samkeppni eru óeðlilegar og í engu samræmi við yfirburðastöðu þess í skjóli margra milljarða króna ríkisstuðnings, en þær eru þó líklega að mestu réttum megin laganna. En Ríkisútvarpið hefur líka haldið áfram að brjóta gegn lögunum sem um það gilda og verið sektað fyrir að minnsta kosti tvö slík tilvik á síðustu mánuðum.“

Að lokum segir í leiðaranum að það virðist vera lítill vilji af hálfu RÚV að fylgja lögum og að stofnunin virðist frekar telja sig hafna yfir þau.

„Þetta er viðhorf sem ekki virðist unnt að laga með minniháttar aðgerðum og þá er ekkert annað eftir en að gera grundvallarbreytingar á starfseminni og fjármögnun hennar, eða hreinlega að leggja stofnunina niður.“