Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, hefur glímt við sjaldgæfan gigtarsjúkdóm síðustu árin eins og mörgum er kunnugt. Hefur hann verið á sterkum lyfjum vegna þessa og notaðist við staf stóran hluta ársins 2018.
Dagur hafði þó ríka ástæðu til að gleðjast um helgina því þá komst hann á topp Hvannadalshnúks með góðum hópi fólks. Dagur greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni og birtir skemmtilegar myndir frá göngunni.
„Í júní fyrir þremur árum lagðist á mig gigt, svo kölluð fylgigigt. Hún kom einsog þruma úr heiðskíru lofti. Einsog sjálfsagt einhverjir muna var ég verulega slæmur lengi vel og þurfti að styðjast við staf allt fram til áramóta. Og ég er ennþá að sprauta mig vikulega með lyfjum. En þvílík undralyf,“ segir Dagur sem kveðst hafa sigrast á sjálfum sér, gigtinni og sjálfsköpuðu hreyfingarleysi síðustu ára um helgina.
„Við höfðum 16 tíma glugga til að komast upp og niður milli votviðris, vinda og skúra. Við óðum snjó í ökkla upp og miðja kálfa niður og hrepptum alls konar verður. Ég ætla ekki að halda því fram að þetta hafi verið auðvelt. Eða að ég sé ekki með strengi og finni til hér og þar. Ég get jafnframt staðfest að það er kalt á toppnum. En þetta var magnað og ég get ekki lýst því með orðum hversu óralangt tilfinningin að ná þessum áfanga var á við óvissuna og glímuna við gigtina undangengin ár,“ segir Dagur.
Hann þakkar gigtarlækninum sínum, Ragnari Frey Ingvarssyni, sérstaklega og tileinkar þessa göngu öllum þeim sem glíma við gigt. Þá er hann þakklátur félögum sínum sem fóryu með honum í gönguna og leiðsögumönnum hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum.