Bubbi slær öðrum listamönnum við – Sjáðu hvað hann fékk mikið í fyrra

Tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens er stundum kallaður kóngurinn og það er ekki að ástæðulausu ef marka má umfjöllun Viðskiptablaðsins í dag.

Félagið ÁKM slf. Sem er í eigu Bubba og eiginkonu hans, Hrafnhildar Hafsteinsdóttur, skilaði mestum hagnaði af samlags- og sameignarfélögum á sviði lista og fjölmiðlunar á síðasta ári. Í Viðskiptablaðinu í dag má finna úttekt um afkomu 360 samlagsfélaga.

Í úttektinni kemur fram að áætlaður hagnaður ÁKM eftir skatta hafi numið 38 milljónum króna í fyrra. Launakostnaður var 10 milljónir.

Bubbi Morthens er einn vinsælasti tónlistarmaður þjóðarinnar en það er þó sjaldan lognmolla í kringum hann. Greint var frá því á dögunum að Bubbi væri óhress með að lag hans og tónlistarmannsins Auðar, Tárin falla hægt, heyrðist ekki á Rás 2. Fór lögmaður Bubba, Einar Þór Sverrisson, á fund útvarpsstjóra vegna málsins.