Björn sendi Kristrúnu bréf og er mjög ósáttur við svarið sem hann fékk

Björn Birgisson, Grindvíkingur og samfélagsrýnir, sendi Kristrúnu Frostadóttur, formannsframbjóðanda í Samfylkingunni, bréf fyrir skemmstu þar sem hann lagði fyrir hana einfalda spurningu.

Flest bendir til þess að Kristrún verði næsti formaður Samfylkingarinnar, en eins og kunnugt er mun Logi Einarsson láta af því embætti á landsfundi flokksins. Formenn þeirra flokka sem sitja ekki í ríkisstjórn fá smurt nokkuð veglega ofan á laun sín og lagði Björn einmitt þá spurningu fyrir Kristrúnu hvort hún myndi þiggja þessa greiðslu.

„Kristrún hefur svarað,“ segir BJörn á Facebook-síðu sinni og bætir við að hann hafi send spurninguna fyrir nokkrum dögum og ítrekað hana í tvígang áður en svar barst í dag. Spurningin var svona:

„Munt þú þiggja þessi rúmlega 673 þúsund á mánuði sem formenn flokka - án ráðherradóms - fá frá ríkinu?“

Björn birtir svo svar Kristrúnar sem var svona:

„Já, verði ég kosin formaður mun ég þiggja þessi formannslaun.“

Björn virðist ekki vera sáttur við svar Kristrúnar ef marka má færslu hans á Facebook.

„Þá liggur það fyrir. „Mútur Davíðs" hef ég stundum kallað þessa aukasporslu til formanna sem ekki eru ráðherrar og ég tel hana með öllu siðlausa og sérlega taktlausan átroðning á skattfé almennings. Ég mun ekki styðja flokk sem lýtur formennsku einhvers sem hefur geð í sér til að þiggja aukalega rúmlega 8 milljónir á ári úr ríkissjóði án nokkurs vinnuframlags á móti eða kröfu um slíkt framlag. Það þarf ekkert að ræða það frekar, en mun alltaf líta á mig sem jafnaðarmann að upplagi. Margir eiga sína pólitísku sýn án þess að eiga aðild að stjórnmálaflokki.“