Björn Geir Leifsson, skurðlæknir með meistarapróf í stjórnun og lýðheilsu birtir mikilvæg skilaboð vegna hinna ýmsu ráðlegginga sem nú ganga um netið, bæði á íslensku og ensku, sem eiga að vinna bug á hinni illræmdu kórónaveiru. Björn Geir birtir pistil á Facebook-síðu sinni sem ber heitið: Aðvörun! Björn segir:
„Óvitar eru að dreifa hættulegri vitleysu um netið, ekki síst á Facebook.“
Einn Íslendingur hefur meðal annars mælt með inntöku klórs og trúir á það fullum fetum að einn til tveir dropar af klór geri kraftaverk. Hann segir:
„Munið samt EplaCider ein til tvær matskeiðar í glas af vatni og 2 til 4 dropa að klór sem er virka efnið í malaríulyfinu. Hafið þetta í huga í hið minnsta eftir að þið verðið veik en betra áður þá 2 dropa.“
Þetta þykir Birni undarlegar ráðleggingar og segir að klór sé alls ekki lyf við covid-19. Björn segir:
„Það er hættulegt að taka inn klór, jafnvel í litlu magni. Það hefur valdið dauðsföllum. Það er ENN hættulegra að blanda sýru (ediki, sítrónusafa eða þess háttar) í klór, við það losnar eitrað gas.“
Björn segir að ráðleggingar þessar megi rekja til biskups í Bandaríkjunum. Fólki með einhverfu hafi verið ráðlagt að taka klór og hafi það valdið mörgum dauðsföllum. Björn segir:
„Því miður eru til dæmi um að íslenskir græðarar séu að ráðleggja að kaupa þetta á netinu og taka inn!“
Björn birtir síðan langan lista sem „auðtrúa óvitar í læknisleik“, bæði íslenskir og erlendir, hafa ráðlagt fólki að innbyrða en virki ekki til að drepa veiruna. Björn segir mikilvægt að hlusta á sérfræðinga og taka ekki til eigin ráða. Á lista Björns er eftirfarandi að finna og virkar ekki sem drápstæki á COVID-19.
„EDIK (epla eða annað)
C vítamín - Nei, það virkar heldur ekki á kvef
E vítamín
D vítamín -skortur á því veikir vissulega varnir líkamans en fæstir eru með svo mikinn skort að inntaka gagnist í bráð
ILMKJARNAOLÍUR ("essential oils")
TEA TREE olía (eitruð)
GRASAMEÐUL af öllu tagi
HVÍTLAUKUR
LAUKUR í sokkinn að sofa með
BLAUTIR sokkar (sofa í)
NEFSKOLUN ekki heldur með stöðnu þvagi (ekki grín)
SMÁSKAMMTAR (hómeópatíuremedíur, hverju nafni sem þær nefnast)
BLÓMADROPAR
LÝSI
TURMERIK/CURCUMIN
ENGIFER - Hressandi v. kvef en hvorki verndandi né læknandi
OMEGA 3
HNYKKINGAR
AYURVEDA meðul (slík geta innihaldið eitraða þungmálma, a.m.k. ekki kaupa á netinu!)
SILFURVATN (colloidal silver) – getur valdið blágráum litabreytingum á húð.
PRECOLD/COLSZYME munnúði
ZINK
SÓLHATTUR (Echinacea)
KVÖLDVORRÓSAROLÍA
ANDOXUNAREFNI hvers konar, m.a. Astaxanthin sem mikið er auglýst þessa dagana og gefið í skyn að hjálpi
FÆÐUÓTAREFNI af öllu tagi.
ÚTFJOLUBLÁTT LJÓS (sólarlampar t.d.) getur valdið bruna og krabbameini í húð
Björn segir einnig að mikilvægt sé að treysta heilbrigðisyfirvöldum og ekki tefja rannsóknir með skottulækningum á netinu.Flestar séu þær kjánalegar en sumar þeirra hreinlega varasamar.
Þá birtir Björn undarlegustu ráðlegginguna af þeim öllum en hún hljóðar svo:
„KÚAMYKJA OG KÚAHLAND“
Samkvæmt indverska gúrúinum ‚Swami Chakrapani Maharaj‘. (Ekki grín)
Swami-inn tekur þó fram að kýrin verði helst að vera indversk og ekki hafa verið að éta rusl á götunum.
Mykjunni á að maka á líkamann og drekka kúahlandið meðan kyrjaðar eru Shiva möntrur!“
Björn Geir segir að lokum: „EKKI TAKA TIL EIGIN RÁÐA! DEILIÐ GJARNAN!“