„Ég gekk reglulega að ljósmynd af Hjálmari mínum og horfði djúpt í augun á honum og sagði: Ég geri þetta í þínu nafni Hjálmar minn því þú varst meistari fyrirgefningarinnar.“
Þetta segir Björn Hjálmarsson, sérfræðilæknir á BUGL, í viðtali við Sigmar Guðmundsson í þættinum Okkar á milli sem sýndur verður á RÚV í kvöld.
Sonur Björns, Hjálmar, var aðeins sextán ára gamall þegar hann lést með voveiflegum hætti í Rotterdam í Hollandi árið 2002. Dánarorsök hefur aldrei legið nákvæmlega fyrir en sjálfur telur Bjarni að syni hans hafi verið ráðinn bani. Hjálmar fannst látinn við ána Oude Maas með ýmsa höfuðáverka en hans hafði þá verið saknað í tvo daga.
Í umfjöllun DV um málið árið 2003 kom fram að félagar hans hefðu í fyrstu sagt að þeir vissu ekki hvar hann væri. Síðan hefðu þeir orðið margsaga um tildrög þess hvar og hvernig hann lést. Lögregla taldi aftur á móti að reiðhjólaslys hefði átt sér stað eða jafnvel sjálfsvíg. Aðstandendur hans töldu það útilokað vegna margháttaðra áverka sem voru á höfði hans. Foreldrar Hjálmars börðust ötullega fyrir því að ítarlegri rannsókn færi fram á málinu.
Í þættinum í kvöld, sem birt hefur verið brot úr á vef RÚV, fer Björn yfir sorgarferlið og loks fyrirgefninguna sem átti sér stað eftir andlát sonar hans. Hann segir meðal annars að ekki sé hægt að þvinga fyrirgefninguna fram, hún þurfi að koma sjálfsprottin en sé líka ákvörðun.
Í umfjöllun á vef RÚV er rifjuð upp hugvekja sem Björn flutti í Hjallakirkju árið 2016 þar sem hann ákvað að fyrirgefa banamönnum Hjálmars.
„Það tók svo á mig að ég varð óvinnufær í nokkra daga. Þetta var ofboðslega sárt og erfitt ferli, ég varð alveg þróttlaus og það tók mig marga daga að ljúka handritinu að þessari hugvekju, en guð minn góður, hvílíkur léttir á eftir,“ segir hann meðal annars og bætir við að honum hafi tekist það sem eiginkona hans leiðbeindi honum um, hætta að láta ólánið skilgreina hann og líta bjartari augum til framtíðarinnar.
Nánar er fjallað um viðtalið á vef RÚV en þátturinn er á dagskrá klukkan 20:00 í kvöld.
Björn ritaði minningarorð um son sinn sem birtist á mbl.is í febrúarmánuði, en þá voru liðin 35 ár frá því að Hjálmar fæddist. Skrif hans vöktu mikla athygli en minningarorðin má lesa í heild sinni hér.