Björgvin Halldórsson, einn af okkar allra bestu tónlistarmönnum, fagnar sjötíu ára afmæli sínu í dag. Í tilefni dagsins heldur hann stórtónleika sem fara fram í streymi frá Borgarleikhúsinu í kvöld.
Björgvin, eða Bó, þarf ekki að kynna fyrir neinum enda hefur hann verið áberandi á tónlistarsviðinu undanfarna áratugi. Í Fréttablaðinu í dag er rætt við Björgvin um tónleikana sem fara fram í kvöld en á þeim fær hann til sín góða gesti sem syngja brot af hans bestu perlum í gegnum árin.
„Ég segi svona í gríni þegar ég er spurður hvernig þetta verði, þá segi ég að þetta verði bara gömlu dansarnir. En þetta er bara ferillinn, allir gestirnir syngja lög sem ég hef hljóðritað. Þekkt lög, GDRN syngur til dæmis þekkt lag eftir mig og við syngjum dúett. Svala syngur eitt af þekktustu lögunum mínum. Allt lög sem ég setti á plötur,“ segir Björgvin þegar hann er spurður hvernig stemningu megi búast við á tónleikunum.
Hægt er að kaupa miða á tónleikana á vefnum Tix.is