„Ég mun sakna þín mikið, en mikið óendanlega er ég þakklátur fyrir allar stundirnar sem við áttum saman og allt sem þú gafst mér í veganesti í lífinu,“ segir Björgólfur Thor Björgólfsson í minningargrein um móður sína, Þóru Hallgrímsson, í Morgunblaðinu í dag.
Þóra lést á Landspítalanum þann 27. ágúst síðastliðinn, níræð að aldri. Eftirlifandi eiginmaður Þóru er Björgólfur Guðmundsson en þau gengu í hjónaband árið 1963. Útför Þóru fer fram í dag.
Þóra stundaði nám við Verzlunarskóla Íslands áður en hún hélt til Englands og Bandaríkjanna í nám. Hún sneri aftur til Íslands árið 1949 og vann meðal annars hjá Shell á Íslandi og í Útvegsbanka Íslands. Þá starfaði hún sem leiðsögumaður erlendra ferðamanna.
Árið 2005 stofnuðu Þóra og Björgólfur minningarsjóð um dóttur sína Margréti og veittu úr honum hundruð styrkja til góðgerðarmála, námsmanna og til lista- og menningarmála.
Björgólfur Thor minnist móður sinnar með hlýjum orðum í Morgunblaðinu í dag.
„Elsku mamma. Hvernig kveður maður þig í hinsta sinn? Hvernig þakkar maður fyrir alla ástina og umhyggjuna sem þú hjúpaðir mig alla ævi? Hvernig get ég sýnt þér hversu mikið ég elskaði þig og hversu mikið ég reiddi mig á þig sem örugga höfn í lífsins brotsjó?
Ég sit hérna hjá þér á sjúkrahúsinu með hönd þína í minni og bið þess að þú vaknir hraustari eftir þessa löngu nótt. Ég þrái að fá að tala við þig um svo margt og óska svo heitt að þú verðir hjá okkur aðeins lengur. Þetta gerist allt svo hræðilega hratt. Svo vek ég þig við sólarupprás, horfi í augu þín og uppsker bros. Þú segist enn vera þreytt og að þú viljir ekki vakna strax – jánkar því að vilja hvíla þig aðeins lengur og ég ákveð að bíða með spjallið. Ég næ þó að skjóta inn með innlifun „… en þú veist að þú ert besta mamma í heimi!“ og uppsker þetta yndislega bros þitt sem einkennir þig svo ótrúlega. Hvernig þú brosir líka alltaf svo sterkt með þínum skörpu en blíðu augum. Þetta eru síðustu samskipti okkar – stuttu seinna ertu horfin af þessari jörð.“
Björgólfur segir að kannski hafi þessi stuttu samskipti verið þau einu sem hann þurfti.
„Þau einu sem í raun skipta máli nú þegar við lokum hringnum frá fæðingu til dauða. Ég horfi út um gluggann yfir Eiríksgötuna á húsið þar sem þú fæddir mig fyrir hálfri öld og okkar sameiginlega ferðalag hófst á fæðingardeildinni. Einungis 150 metrar eru þarna á milli – frá upphafi til enda okkar samveru á þessari jörð. Lífið er skrýtið. Þú varst besta mamma í heimi, það er eina sem ég get sagt um okkar samveru. Ég naut alltaf góðs af endalausri gæsku þinni og ró í öllu sem á dundi á ferðalagi mínu með þér sem barn, strákur, maður og svo loks fjölskyldufaðir. Alltaf mætti maður skilningi og ást hjá þér, þegar þú horfðir á mann með skilyrðislausri ást og hallaðir höfði til hliðar með blíðu andvarpi. Takk fyrir allt elsku mamma. Ég mun sakna þín mikið, en mikið óendanlega er ég þakklátur fyrir allar stundirnar sem við áttum saman og allt sem þú gafst mér í veganesti í lífinu.“
