Birgir lætur Davíð Þór finna fyrir því: Búinn að kveikja nýtt ófriðarbál með því að afþakka heimsóknir skólabarna á aðventunni

Birgir Þórarinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er allt annað en sáttur við Davíð Þór Jónsson, sóknarprest í Laugarneskirkju. Davíð Þór tilkynnti í síðustu viku að Laugarneskirkja hefði ákveðið að afþakka heimsóknir skólabarna á komandi aðventu. Vildi hann gera þetta þar sem heimsóknirnar hefðu skapað andstöðu og sundrung.

Birgir, sem er guðfræðingur að mennt, gerir málið að umtalsefni í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag þar sem hann gagnrýnir Davíð. Segir hann að Davíð virðist mikið í mun að hans verði minnst í sögubókunum.

Í byrjun greinar sinnar vísar Birgir í orð á heimasíðu Laugarneskirkju þar sem fram kemur að kirkjan sé lifandi kirkja í hverfinu.

„Hætt er hins vegar við því að Laugarneskirkja verði ekki eins lifandi á komandi aðventu og verið hefur. Ástæðan er ákvörðun kirkjunnar um að afþakka heimsóknir grunnskólabarna á þeim tíma sem flestir horfa til kirkjunnar í aðdraganda jólahátíðar. Undir tilkynningu þess efnis frá kirkjunni ritar sóknarpresturinn, sá hinn sami og vék ómaklega að forsætisráðherra á vormánuðum og dæmdi heilan stjórnmálaflokk til helvítisvistar.“

Birgir víkur sér svo að Davíð og segir að honum virðist mikið í mun að hans verði minnst í sögubókum.

„Honum mun væntanlega verða að ósk sinni þar sem þess þekkjast ekki dæmi í kirkjusögunni að heimsóknir grunnskólabarna í kirkjuna séu afþakkaðar,“ segir Birgir. Hann vísar svo í orð Davíðs í tilkynningunni sem hann sendi frá sér að ósk kirkjunnar sé sú að um starf hennar ríki sátt og friður.

„Ég fæ ekki betur séð af viðbrögðum á samfélagsmiðlum en ákvörðunin hafi haft þveröfug áhrif, prestinum hafi tekist að kveikja nýtt ófriðarbál í kringum kirkjuna með þessari vanhugsuðu ákvörðun. Í umræðunni sá ég meðal annars vangaveltur um hvað yrði næst og eðlilegt er að spurt sé. Ísland er kristið land og kristni hefur mótað það samfélag sem við búum í. Saga landsins og kristni eru að mörgu leyti samofin. Tengslin eru menningarleg, söguleg og félagsleg. Þjóðkirkjan nýtur verndar samkvæmt stjórnarskrá og ríkisvaldið á að styðja hana og styrkja. Forsætisráðherra hefur sýnt það í verki og fyrir það ber að þakka.“

Birgir segir að kirkjan megi ekki bregðast hlutverki sínu þó hún mæti andstöðu lítils hóps. Skorar hann á sóknarnefnd kirkjunnar að falla frá þessari ákvörðun, standa vörð um kristna trú og standa vörð um aðventuna og mikilvægt hlutverk barna í henni.

„Ég leyfi mér að fullyrða að mikill minnihluti foreldra er andstæður kirkjuheimsóknum grunnskólabarna á aðventu. Það á ekki að bitna á meirihlutanum. Lifandi kirkja býður grunnskólabörn velkomin í kirkjuna á aðventu.“