Birgir hæðist að nafn­breytingar hugmyndum Sam­fylkingarinnar: „Einu sinni var í litlu þorpi ein­stæð móðir með son sinn“

Birgir Dýr­fjörð, fyrr­verandi þing­maður og innan­búðar maður í Sam­fylkingunni, skrifar nokkur skondna grein í dag sem ber heitið „hjá­kát­leg til­raun með nafn.“

Birgir hefur starfað fyrir Sam­fylkinguna um ára­bil en hann sagði sig úr upp­stillingar­nefnd flokksins í Reykja­vík vegna þess hann taldi flokkinn hafa unnið „ó­dæðis­verk gegn ó­virkum alkó­hól­istum” með því að bola Ágústi Ólafi Ágústs­syni þing­manni úr flokknum.

„Einu sinni var í litlu þorpi ein­stæð móðir með son sinn. Hann hét Haraldur, kallaður Halli. Af ein­hverjum á­stæðum festist við hann viður­nefnið hrúka. Hann var því kallaður Halli hrúka,“ skrifar Birgir.

„Mæðginin höfðu ama af upp­nefninu. Þegar Halli fermdist sá móðir hans sér leik á borði að af­tengja upp­nefnið, og lét skýra Halla aftur. Hann var þá skýrður Ás­geir. Eftir það kallaði hún strákinn alltaf Geira sinn, og þorps­búar kölluðu hann líka Geira,“ skrifar Birgir.

„Þetta var fyrir okkar tíma í Sam­fylkingunni, og það fannst enginn svo heimskur í þorpinu, að halda, að með nýja nafninu yrði Geiri annar og nýr strákur. Í þeirra munni var hann því alltaf kallaður, „Geiri - bróðir Halla heitins hrúku,“ skrifar Birgir að lokum.