Berg­þór: Ís­lendingar að rúlla yfir Dani og staðan orðin alveg stjórn­laus

„Þegar bornar eru saman tölur fyrir fyrstu 10 mánuði ársins 2022 kemur ó­trú­leg þróun í ljós,“ segir Berg­þór Ólafs­son, þing­flokks­for­maður Mið­flokksins, í að­sendri grein í Morgun­blaðinu í dag.

Þar ber hann saman stöðuna í mál­efnum hælis­leit­enda á Ís­landi annars vegar og í Dan­mörku hins vegar.

„Dönum varð ljóst fyrir nokkrum árum að staðan í mál­efnum hælis­leit­enda væri orðin stjórn­laus. Og hvað gerðu Danir? Jú, þeir brugðust við undir for­ystu krata, sem þá höfðu yfir­tekið stefnu Danska þjóðar­flokksins í mál­efnum út­lendinga.“

Berg­þór rifjar svo upp að Pia Kjærs­ga­ard hafi um tíma verið for­maður Danska þjóðar­flokksins og ýmsum þótt það hið versta mál þegar hún var heiðurs­gestur á Þing­völlum, í boði Al­þingis, vegna aldar­af­mælis full­veldisins.

„Það er auð­vitað svo­lítil kald­hæðni í því fólgin að danskir kratar hafi tekið upp stefnu Danska þjóðar­flokksins, jafn mikið og sú stefna og sá flokkur var fyrir­litinn um stund. Nú liggja fyrir nýjar tölur á upp­lýsinga­vef verndar­mála um fjölda um­sókna um al­þjóð­lega vernd á Norður­löndum fyrir hverja 10 þúsund íbúa (saman­burðar­hæfar tölur),“ segir Berg­þór og bætir við að ó­trú­leg staða blasi við þegar bornar eru saman tölur fyrir fyrstu 10 mánuði ársins 2022. Tekur hann fram að inni í þessum tölum sé ekki fjöldi flótta­manna frá Úkraínu.

„Fjöldi um­sókna fyrir hverja 10 þúsund íbúa er hæstur á Ís­landi, lang­hæstur. 41 um­sókn barst hingað til lands fyrir hverja 10 þúsund íbúa. Sam­bæri­leg tala fyrir Dan­mörku er 2! Munurinn er rúm­lega tví­tug­faldur! Á milli Ís­lands og Dan­merkur liggja svo hin Norður­löndin. Sví­þjóð með 14 um­sóknir, Finn­land með átta og Noregur með sex. Ís­land í öllu til­liti með hlut­falls­lega lang­mesta fjöldann,“ segir Berg­þór sem spyr hvers vegna þessi þróun skyldi vera.

„Sér­ís­lenskir seglar hafa sín á­hrif. Og svo eru það auð­vitað skila­boðin sem stjórn­völd senda frá sér. Dönsk stjórn­völd hafa ein­sett sér að enginn komi til Dan­merkur til að sækja um al­þjóð­lega vernd, heldur sæki fólk í neyð um danska vernd á nær­svæðum sínum og dönsk stjórn­völd velji úr þann hóp sem þau telja sig ráða við að taka á móti. Í því felst engin mann­vonska, heldur þvert á móti felst í því mildi að hlífa fólki við löngu og erfiðu ferða­lagi, upp á von og óvon. Oft undir handar­jaðri glæpa­gengja sem hafa gert sér neyð þess að fé­þúfu,“ segir Berg­þór í grein sinni.

Annað sem hann segir nauð­syn­legt að ræða er að þeir fjár­munir sem varið er til mála­flokksins hér á Ís­landi gætu gert mun meira gagn fyrir fleiri á nær­svæðum þess fólks sem finnur sig á flótta. Að minnsta kosti meira gagn en hér heima í einu dýrasta landi heims.

„Fjöldi þeirra sem hingað sækja al­þjóð­lega vernd og eru með ríkis­fang í Venesúela er síðan kapítuli út af fyrir sig. Sé horft til síðustu þriggja mánaða sóttu fleiri frá Venesúela um vernd á Ís­landi en hingað leituðu frá Úkraínu. Í öðru landinu er stríð, þar sem hús og hí­býli eru sprengd í loft upp, í hinu landinu er vinstri­stjórn. Blasir ekki við að ein­hvers staðar höfum við mis­stigið okkur? Litla-út­lendinga­málið leysir í öllu falli ekki þann vanda sem við blasir. Reglu­verk út­lendinga­mála þarfnast heildar­endur­skoðunar. Sú vinna þarf að hefjast strax.“