„Oft rekur mann í rogastans þegar maður fylgist með umfjöllun Ríkisútvarps allra landsmanna um málefni líðandi stundar. Sérstaklega þegar mál eru eldfim, skoðanir skiptar og ríður á að lögbundið hlutleysi ríkisfjölmiðilsins skíni í gegn þannig að fólk geti myndað sér upplýsta afstöðu í málum,“ segir Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.
Þar gerir Bergþór fréttaflutning RÚV um málefni sjókvíaeldis á Íslandi að umtalsefni og má skilja svo á orðum Bergþórs að hann telji fréttastofuna ekki gæta hlutleysis í umfjöllun sinni.
„Það væri nú gaman, svona einu sinni, að sjá þessa átta milljarða sem skattgreiðendur leggja að meginhluta til ríkisfjölmiðilsins nýtta eins og lög gera ráð fyrir. Nú hefur verið til umfjöllunar efni skýrslu ríkisendurskoðanda um sjókvíaeldi á Íslandi. Sú skýrsla kveður á um gagnrýni á stjórnsýsluna í kringum greinina, eftirlit og annað,“ segir Bergþór sem bendir á að sjókvíaeldi sé ný atvinnugrein, í örri þróun og atvinnusköpun mikil.
„Fyrirtækin sem stunda fiskeldi hafa sjálf kallað eftir bættri stjórnsýslu og eftirliti í kringum greinina og leggja nú til ríkisins um 800 milljónir á ári í auðlindagjald (fiskeldisgjald), sem fer hratt hækkandi og verður um þrír milljarðar á ári þegar núgildandi leyfi verða fullnýtt. Til viðbótar þessu eru aflagjöld og gjöld í umhverfissjóð sjókvíaeldis upp á hundruð milljóna á ári.“
Bergþór segir að RÚV hafi að undanförnu farið þá leið að „draga á flot“ einn mann í alla umræðuþætti og umfjallanir um skýrsluna og sjókvíaeldi.
„Sá maður fer fyrir hópi sem hefur það helst að markmiði að stöðva sjókvíaeldi á Íslandi – hópurinn kallast Icelandic Wildlife fund og er haldið uppi af ónafngreindum aðilum. Maðurinn er þó aldrei kynntur sem slíkur inn í umræðuna heldur aðeins sem „talsmaður Íslenska náttúruverndarsjóðsins“ sem ber það í engu með sér að hafa þetta sérstaka markmið – að stöðva heilan iðnað sem hefur tryggt mikla atvinnusköpun og verðmæti á svæðum þar sem áður var mikil einsleitni í atvinnumálum.“
Maðurinn sem Bergþór vísar til, án þess þó að nafngreina hann er Jón Kaldal.
„Þessi ágæti maður má auðvitað tjá skoðun sína eins og allir aðrir en að RÚV gefi honum færi á því trekk í trekk, ekki í einum þætti heldur öllum og gæti þess varla að hafa mótvægi – þ.e. einhvern sem gæti haft eitthvað jákvætt um sjókvíaeldi að segja – er heldur langt gengið. Raunin er nefnilega sú að það má margt bæta þegar kemur að stjórnsýslulegri umgjörð sjókvíaeldis – með það fyrir augum að gera þeim sem leggja þessa atvinnugrein fyrir sig kleift að skapa verðmæti fyrir sig og þjóðina alla, í formi atvinnu og framlags til ríkissjóðs. Við hljótum að vera sammála um að sjónarmið mannsins sem fær greiddar margar milljónir fyrir að koma í veg fyrir sjókvíaeldi með hæpnum rökum verði ekki ofan á þrátt fyrir að RÚV leggi þar allt í sölurnar. Vonandi hreyfist umræðan í raunhæfari átt – fleiri sjónarmið verði rædd og mun undirritaður ekki láta sitt eftir liggja í þeim efnum.“