Berg­þór furðar sig á RÚV: „Maðurinn er þó aldrei kynntur inn sem slíkur“

„Oft rekur mann í roga­stans þegar maður fylgist með um­fjöllun Ríkis­út­varps allra lands­manna um mál­efni líðandi stundar. Sér­stak­lega þegar mál eru eld­fim, skoðanir skiptar og ríður á að lög­bundið hlut­leysi ríkis­fjöl­miðilsins skíni í gegn þannig að fólk geti myndað sér upp­lýsta af­stöðu í málum,“ segir Berg­þór Óla­son, þing­flokks­for­maður Mið­flokksins, í að­sendri grein í Morgun­blaðinu í dag.

Þar gerir Berg­þór frétta­flutning RÚV um mál­efni sjó­kvía­eldis á Ís­landi að um­tals­efni og má skilja svo á orðum Berg­þórs að hann telji frétta­stofuna ekki gæta hlut­leysis í um­fjöllun sinni.

„Það væri nú gaman, svona einu sinni, að sjá þessa átta milljarða sem skatt­greið­endur leggja að megin­hluta til ríkis­fjöl­miðilsins nýtta eins og lög gera ráð fyrir. Nú hefur verið til um­fjöllunar efni skýrslu ríkis­endur­skoðanda um sjó­kvía­eldi á Ís­landi. Sú skýrsla kveður á um gagn­rýni á stjórn­sýsluna í kringum greinina, eftir­lit og annað,“ segir Berg­þór sem bendir á að sjó­kvía­eldi sé ný at­vinnu­grein, í örri þróun og at­vinnu­sköpun mikil.

„Fyrir­tækin sem stunda fisk­eldi hafa sjálf kallað eftir bættri stjórn­sýslu og eftir­liti í kringum greinina og leggja nú til ríkisins um 800 milljónir á ári í auð­linda­gjald (fisk­eldis­gjald), sem fer hratt hækkandi og verður um þrír milljarðar á ári þegar nú­gildandi leyfi verða full­nýtt. Til við­bótar þessu eru afla­gjöld og gjöld í um­hverfis­sjóð sjó­kvía­eldis upp á hundruð milljóna á ári.“

Berg­þór segir að RÚV hafi að undan­förnu farið þá leið að „draga á flot“ einn mann í alla um­ræðu­þætti og um­fjallanir um skýrsluna og sjó­kvía­eldi.

„Sá maður fer fyrir hópi sem hefur það helst að mark­miði að stöðva sjó­kvía­eldi á Ís­landi – hópurinn kallast Icelandic Wild­li­fe fund og er haldið uppi af ó­nafn­greindum aðilum. Maðurinn er þó aldrei kynntur sem slíkur inn í um­ræðuna heldur að­eins sem „tals­maður Ís­lenska náttúru­verndar­sjóðsins“ sem ber það í engu með sér að hafa þetta sér­staka mark­mið – að stöðva heilan iðnað sem hefur tryggt mikla at­vinnu­sköpun og verð­mæti á svæðum þar sem áður var mikil eins­leitni í at­vinnu­málum.“

Maðurinn sem Berg­þór vísar til, án þess þó að nafn­greina hann er Jón Kal­dal.

„Þessi á­gæti maður má auð­vitað tjá skoðun sína eins og allir aðrir en að RÚV gefi honum færi á því trekk í trekk, ekki í einum þætti heldur öllum og gæti þess varla að hafa mót­vægi – þ.e. ein­hvern sem gæti haft eitt­hvað já­kvætt um sjó­kvía­eldi að segja – er heldur langt gengið. Raunin er nefni­lega sú að það má margt bæta þegar kemur að stjórn­sýslu­legri um­gjörð sjó­kvía­eldis – með það fyrir augum að gera þeim sem leggja þessa at­vinnu­grein fyrir sig kleift að skapa verð­mæti fyrir sig og þjóðina alla, í formi at­vinnu og fram­lags til ríkis­sjóðs. Við hljótum að vera sam­mála um að sjónar­mið mannsins sem fær greiddar margar milljónir fyrir að koma í veg fyrir sjó­kvía­eldi með hæpnum rökum verði ekki ofan á þrátt fyrir að RÚV leggi þar allt í sölurnar. Vonandi hreyfist um­ræðan í raun­hæfari átt – fleiri sjónar­mið verði rædd og mun undir­ritaður ekki láta sitt eftir liggja í þeim efnum.“