Benedikt Bóas Hinriksson, blaðamaður á Fréttablaðinu, hefur fengið sig fullsaddan á endalausi tali um það sé ómögulegt að kaupa íbúð á Íslandi. Þingmenn og aðrir hafa málað upp frekar svarta mynd sem verður að teljast letjandi þó ástandið vissulega mætti vera betra.
„Það er eins og himinn og jörð séu að farast af því unga fólkið getur ekki keypt sér íbúð. Eins og það sé einhver ný saga að það sé erfitt að kaupa sér íbúð. Það er ekkert mál að kaupa sér íbúð. Það þarf bara að hafa fyrir því.,“ skrifar Benedikt Bóas íFréttablaðinu í gær.
„Kynslóðin í dag er ekki tilbúin í að fórna 200 þúsund króna símanum, 100 þúsund króna hettupeysunni, 80 þúsund króna Michael Jordan skónum sínum og öllu hinu til að fá læk á samfélagsmiðlum. Þau vilja bara að mamma og pabbi eða afi og amma gefi þeim fyrir fram greiddan arf til að komast út á fasteignamarkaðinn. Eins og það sé rétta leiðin?“ spyr Benedikt.
Hann segir að auðvitað sé það galið hvernig fasteignamarkaðurinn er og virkar.
„Fyrir utan að þurfa að spara sér fyrir íbúðinni þá þarf að eiga fyrir fasteignasalanum og hinum ömurlegu umsýslugjöldum. Andskotann á það að þýða að það þurfi að borga banka fleiri hundruð þúsund fyrir að sýsla með peningana sem hefðu geta farið í sófasett eða jafnvel sjónvarp,“ skrifar Benedikt.
„Það er blóðpeningur að þurfa að greiða umsýslugjald. Það eru gjöld sem ættu að hverfa enda er þetta einföld aðgerð en kostar nánast augun úr. Ef það ætti að berjast fyrir einhverju þá er það að leggja þau niður,“ skrifar Benedikt.