Bærinn minn – í kvöld: Horfir ofan í stærsta hraunhelli landsins

Það er í meira lagi undarleg tilfinning að láta sig hverfa ofan í eitt mesta gímald íslenskra hraunhella og ráfa þar um á mörgum hæðum í 200 metra löngum skútanum og njóta þar mestu lofthæðar sem íslenskir hellar af þessu tagi geta státað af.

Já, heimsókn í Vatnshelli í Purkhólahrauni á utanverðu Snæfellsnesi er meðal atriða í þættinum Bærinn minn á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í kvöld klukkan 21:30, en þar er fjallað um sjarma og sérstöðu bæjanna undir jökli; Ólafsvíkur, Rifs og Hellissands og samliggjandi sveita í Breiðuvík og Staðarsveit sem sameiginlega kallast Snæfellsbær. Svæðið er kjörlendi ferðamannsins með ótal gistimöguleika, svo sem á einstöku tjaldstæðinu í hraunjaðrinum á Hellissandi, rómaðri bændagistingu eða sögufrægu hótelinu á Búðum – og svo stendur honum til boða fjöldi girnilegra veitingahúsa sem leggur áherslu á lostæti úr héraði, spriklandi ferskt og fram borið af metnaði.

Og náttúran á þessu svæði er engu lagi lík, svo fjölbreytt og töfrandi að ferðamaður þarf minnst viku, helst tvær, til að komast yfir allan þann fjölda af glitrandi perlum Nessins – og nægir þar að nefna Arnarstapa, Hellna, Rauðfeldsgjá, einhverja þá 200 fossa sem skreyta svæðið, Lóndranga, Þúfubjarg og Svalþúfu, áðurnefndan Vatnshelli og Saxhól sem státar af forláta stáltröppum sem vakið hafa heimsathygli fyrir hönnun sína og virðingu fyrir náttúrunni.

Fjöldi viðmælenda kemur fram í þættinum, stemningsríkir heimamenn sem eiga auðvelt með að gera góðlátleg grín að dyntum sínum og duttlungum, en segja líka af kunnáttu frá ríkri sögu svæðisins allt frá því fyrir landnám þegar Snæfellsnes var ein helsta útstöð vermanna í Evrópu sem þangað sóttu fisk og lýsi, að ekki sé talað um rostungstennurnar sem sem seldar voru háu verði um allar álfur.

Þátturinn er sá síðasti í sex þátta röð um ferðamöguleikana í og við bæjarfélög landsins en áður hafa þeir Björn G. Sigurðsson myndatökumaður og Sigmundur Ernir sjónvarpsmaður heimsótt Blönduós, Fjarðabyggð, Akureyri, Vestmannaeyjar og Reykjanesbæ og eru þeir þættir allir aðgengilegir á hringbraut.is auk þess sem þeir verða endursýndir á næstu vikum í þeirri röð sem að ofan greinir.