Ásta ekki sátt við breytinguna: Erfitt fyrir fátæka að fá ekki dósapeninginn strax

„Þótt þetta sé bara sólar­hringur sem tekur peninginn að skila sér til fólks þá getur það verið mjög óheppi­legt ef þú ert á þeim stað að vera búin að safna flöskum til að bjarga þér með ein­hverjar nauðþurftir,“ segir Ásta Dís Skjalddal í samtali við Fréttablaðið í dag.

Ásta er samhæfingarstjóri Pepps, grasrótar fólks í fátækt og félagslegri einangrun. Greint var frá því á dögunum að Endurvinnslan leggi ekki lengur skilagjald af flöskum og dósum milliliðalaust inn á greiðslukort. Tók breytingin gildi um áramót.

Upphæðin skilar sér nú næsta virka dag í gegnum snjallforrit, en Ásta segist telja að þetta komi illa við þá sem hafa minnst milli handanna og hafa dósir og flöskur sem neyðarsjóð.

Ásta segir við Fréttablaðið að það sé vel þekkt að margir treysti á flösku- og dósa­söfnun sem á­kveðinn neyðar­sjóð sem oftar en ekki er gripið til þegar bjarga þarf nauð­synjum; mat, mjólk, bleyjum og öðru sem þarf að kaupa sam­dægurs.

Nánar er fjallað um málið á vef Fréttablaðsins.