Árni og Þor­leifur segja Steinunni eiga betra skilið: Allt annað en sáttir við um­fjöllun Kiljunnar

Árni Óskars­son þýðandi og Þor­leifur Hauks­son, ís­lensku- og bók­mennta­fræðingur, eru ekki sáttir við um­fjöllun Kiljunnar þann 10. nóvember síðast­liðinn um bókina Systu megin eftir Steinunni Sigurðar­dóttur.

Árni og Þor­leifur skrifa langa grein um málið sem birtist í Frétta­blaðinu í dag þar sem gagn­rýnin beinist að Þor­geiri Tryggva­syni.

Í grein sinni benda Árni og Þor­leifur á að bókin fjalli ekki síst um út­legð og mann­lega reisn í sárri fá­tækt. Bókin eigi erindi við okkar tíma en aðal­per­sónan, Systa, býr við ömur­legar að­stæður í lítilli og kaldri kjallara­holu í Þing­holtunum þar sem hún er gjör­sneydd öllum nú­tíma­þægindum og fram­fleytir sér við að safna dósum.

Staðreyndir affluttar

„Sagan er að hluta sögð í fyrstu per­sónu, Þor­geir Tryggva­son lét í ljós það álit í fyrr­nefndum Kilju­þætti að lýsingar hennar sjálfrar á þessu lífi bæru því vitni að henni þætti það nánast eftir­sóknar­vert. Og þá er stutt í þá at­hyglis­verðu á­lyktun hans að það sé „eins og þetta sé ekki bók um heimilis­leysi og sára fá­tækt heldur um mínímalískan lífs­stíl“.“

Árni og Þor­leifur halda á­fram og segja:

„Lánið leikur líka við Systu að öðru leyti að hans mati, því hann bætir þessu við: „Það er mjög á­berandi í þessari bók að það eru allir góðir við hana“ (Systu); „það eru allir að gauka að henni hlutum, það eru allir að reyna að hjálpa henni og bjóða henni hluti sem hún ýmist þiggur eða þiggur ekki“. Fjöldi dæma sannar svart á hvítu að hér eru stað­reyndir af­fluttar í svo stórum stíl að Systu megin verður ó­þekkjan­leg bók. Hið rétta er að Systa á sér í raun einn stuðnings­mann, Lóló, ein­fætta úti­gangs­konu. Aðrir sem hún á teljandi sam­skipti við, móðir hennar, bróðir og „vinnu­veitandi“, sýna af sér illsku í hennar garð, leynt og ljóst.“

Þá segja þeir að þráð­beinar at­burða­lýsingar virðist einnig hafa farið fram hjá þeim Þor­geiri Tryggva­syni og hinum tveimur um­fjal­lendunum, Agli Helga­syni og Sunnu Dís Más­dóttur. Systa sé ekki einungis bein­línis at­yrt heldur einnig barin til blóðs af bróður sínum.

Steinunn á betra skilið

„Að­eins eitt ó­ljóst dæmi má finna um það í sögunni að Systa þiggi ekki það sem að henni er rétt. Systa bjargar sér á því að hirða úr ösku­tunnum. Því litla, sem er gaukað að henni er greini­lega af höfundar hálfu, ætlað að undir­strika ein­stæðings­skap hennar og sára­fá­tækt (sund­kort og strætómiðar sem jóla­gjöf frá mömmu hennar, blóma­pottur með sprungu, ó­skila­sund­bolur úr Sund­höllinni). Ef Systa væri látin um að svara orðum Þor­geirs gæti það hljómað svona, eins og reyndar í bókinni stendur: „Ef ég ætti peninga held ég að ég mundi reyna að gera öðrum gott og gauka að lítil­magna eins og sjálfri mér. Vel gæti auð­vitað verið að gaukað yrði að mér, ef ég þekkti ein­hvern.“

Í um­fjöllun sinni seegja Árni og Þor­leifur að hægt væri að gera langan lista með dæmum sem sýna svart á hvítu af­flutning beinna stað­reynda í um­fjöllun Kiljunnar um Systu megin, en lesa þurfi bókina til að átta sig á um­fangi öfug­mælanna í þættinum.

„Um frá­sagnar­háttinn, ný­stár­lega og hug­vits­sam­lega að­ferð höfundar til að bregða ljósi á hugar­heim og um­hverfi sögu­per­sónunnar í marg­radda frá­sögn með einkar fjöl­skrúðugu orð­færi var ekkert fjallað í þættinum, en sú van­ræksla væri efni í nýja grein. Steinunn Sigurðar­dóttir hefur sinnt rit­starfi sínu af fag­mennsku lengur en f lestir aðrir nú­lifandi höfundar á Ís­landi. Við lítum svo á að um­fjöllun um verk eftir hana verð­skuldi alúð, þekkingu og opinn huga en ekki þá með­ferð sem Systu megin varð fyrir í Kiljunni 10. nóvember 2021. Bókin sem þar var rætt um kann að vera til, en hún er ekki eftir Steinunni.“