Árni Óskarsson þýðandi og Þorleifur Hauksson, íslensku- og bókmenntafræðingur, eru ekki sáttir við umfjöllun Kiljunnar þann 10. nóvember síðastliðinn um bókina Systu megin eftir Steinunni Sigurðardóttur.
Árni og Þorleifur skrifa langa grein um málið sem birtist í Fréttablaðinu í dag þar sem gagnrýnin beinist að Þorgeiri Tryggvasyni.
Í grein sinni benda Árni og Þorleifur á að bókin fjalli ekki síst um útlegð og mannlega reisn í sárri fátækt. Bókin eigi erindi við okkar tíma en aðalpersónan, Systa, býr við ömurlegar aðstæður í lítilli og kaldri kjallaraholu í Þingholtunum þar sem hún er gjörsneydd öllum nútímaþægindum og framfleytir sér við að safna dósum.
Staðreyndir affluttar
„Sagan er að hluta sögð í fyrstu persónu, Þorgeir Tryggvason lét í ljós það álit í fyrrnefndum Kiljuþætti að lýsingar hennar sjálfrar á þessu lífi bæru því vitni að henni þætti það nánast eftirsóknarvert. Og þá er stutt í þá athyglisverðu ályktun hans að það sé „eins og þetta sé ekki bók um heimilisleysi og sára fátækt heldur um mínímalískan lífsstíl“.“
Árni og Þorleifur halda áfram og segja:
„Lánið leikur líka við Systu að öðru leyti að hans mati, því hann bætir þessu við: „Það er mjög áberandi í þessari bók að það eru allir góðir við hana“ (Systu); „það eru allir að gauka að henni hlutum, það eru allir að reyna að hjálpa henni og bjóða henni hluti sem hún ýmist þiggur eða þiggur ekki“. Fjöldi dæma sannar svart á hvítu að hér eru staðreyndir affluttar í svo stórum stíl að Systu megin verður óþekkjanleg bók. Hið rétta er að Systa á sér í raun einn stuðningsmann, Lóló, einfætta útigangskonu. Aðrir sem hún á teljandi samskipti við, móðir hennar, bróðir og „vinnuveitandi“, sýna af sér illsku í hennar garð, leynt og ljóst.“
Þá segja þeir að þráðbeinar atburðalýsingar virðist einnig hafa farið fram hjá þeim Þorgeiri Tryggvasyni og hinum tveimur umfjallendunum, Agli Helgasyni og Sunnu Dís Másdóttur. Systa sé ekki einungis beinlínis atyrt heldur einnig barin til blóðs af bróður sínum.
Steinunn á betra skilið
„Aðeins eitt óljóst dæmi má finna um það í sögunni að Systa þiggi ekki það sem að henni er rétt. Systa bjargar sér á því að hirða úr öskutunnum. Því litla, sem er gaukað að henni er greinilega af höfundar hálfu, ætlað að undirstrika einstæðingsskap hennar og sárafátækt (sundkort og strætómiðar sem jólagjöf frá mömmu hennar, blómapottur með sprungu, óskilasundbolur úr Sundhöllinni). Ef Systa væri látin um að svara orðum Þorgeirs gæti það hljómað svona, eins og reyndar í bókinni stendur: „Ef ég ætti peninga held ég að ég mundi reyna að gera öðrum gott og gauka að lítilmagna eins og sjálfri mér. Vel gæti auðvitað verið að gaukað yrði að mér, ef ég þekkti einhvern.“
Í umfjöllun sinni seegja Árni og Þorleifur að hægt væri að gera langan lista með dæmum sem sýna svart á hvítu afflutning beinna staðreynda í umfjöllun Kiljunnar um Systu megin, en lesa þurfi bókina til að átta sig á umfangi öfugmælanna í þættinum.
„Um frásagnarháttinn, nýstárlega og hugvitssamlega aðferð höfundar til að bregða ljósi á hugarheim og umhverfi sögupersónunnar í margradda frásögn með einkar fjölskrúðugu orðfæri var ekkert fjallað í þættinum, en sú vanræksla væri efni í nýja grein. Steinunn Sigurðardóttir hefur sinnt ritstarfi sínu af fagmennsku lengur en f lestir aðrir núlifandi höfundar á Íslandi. Við lítum svo á að umfjöllun um verk eftir hana verðskuldi alúð, þekkingu og opinn huga en ekki þá meðferð sem Systu megin varð fyrir í Kiljunni 10. nóvember 2021. Bókin sem þar var rætt um kann að vera til, en hún er ekki eftir Steinunni.“