Arnar Orri Bjarnason, einn þeirra sem kom að gerð leikmyndar fyrir nýju Netflix-þættina Katla, segir að samstarfsörðugleikar sem komu upp rétt fyrir tökur hafi orðið til þess að fyrirtækinu var ekki gefið kredit í kreditlista þáttanna.
Arnar skrifaði færslu um þetta á Facebook sem vakið hefur talsverða athygli og fjallaði Vísir til dæmis um málið í dag.
„Til hamingju öll þið frábæra listafólk sem komuð að gerð Kötlu!
Það verður gaman að sjá hvernig leikmyndin kemur út, en við hjá Irma bæði komum að hönnun og smíði á leikmyndinni, þó svo að það hafi verið ákveðið að nefna það ekki í kredit listanum,“ sagði Arnar í færslu á Facebook-síðu sinni á föstudag, degi eftir að þættirnir voru frumsýndir.
Sunneva Ása Weisshappel, unnusta Baltasars Kormáks, skapara þáttanna, er titluð sem leikmyndahönnuður þáttanna (e. production designer) á vefnum IMDB.com. Arnar Orri er þeirrar skoðunar að einstaklingur sem stígur inn á lokametrunum eigi ekki að eigna sér allan heiðurinn og kalla sig hönnuð leikmyndar þó einhverjar breytingar hafi átt sér stað.
„Rétt eins og að titla mig sem smið, en ég var yfirsmiður í þessu verkefni, og það vekur furðu, að fyrirtæki sem telur sig vera leiðandi í kvikmyndaframleiðslu á íslandi skuli ekki geta titlað samstarfsfólk sitt rétt.“
Sigurjón Kjartansson, sem kemur að þáttunum ásamt Baltasar, segir að allir sem komu að leikmyndasmíðinni hafi fengið kredit fyrir og þar með talið allir þeir sem komu frá Irma.
„Heimir Sverrisson sem tók upphaflega að sér að hanna leikmyndir Kötlu ákvað að yfirgefa verkefnið þremur vikum fyrir tökur vegna listræns ágreinings við leikstjóra verkefnisins og bað skriflega um að vera tekinn af kreditlista. Við því var orðið. Tímasetningin var vægast sagt óheppileg og setti framleiðsluferlið óhjákvæmilega í uppnám, en með frábæru teymi tókst að að ljúka hönnun og uppsetningu leikmynda í tæka tíð fyrir fyrsta tökudag samkvæmt óskum framleiðenda,“ segir Sigurjón í svari sínu undir færslu Arnars.
Arnar svarar því til að „listrænn ágreiningur“ sé áhugaverð túlkun á því sem átti sér stað. Það sé þó önnur saga.
„Það er rétt, Heimir hætti í verkefninu með skriflegum hætti og baðst undan að fá kredit fyrir sín störf. En til að lægja ölduganginn var tekinn fundur og sáttum náð með undirritun samnings við Heimi sem leikmyndahönnuð á verkinu og er ég með þann samning undir höndum. Því miður var þeirri sátt ekki haldið til streytu. Og þetta skýrir heldur ekki rangtitil í minn garð. Og þetta skiptir máli, og þetta snýst ekki um titlatog, heldur algjört virðingaleysi þessa fyrirtækis í garð vinnandi fólks.“
Arnar bætir því við að með því að minnast á aðkomu Irmu í hönnun og smíði í leikmyndinni sé hann ekki að gera lítið úr störfum þess sem er titlaður sem hönnuður á verkinu. „Þvert á móti. En lokaútkoman er frábær í alla staði þökk sé góðu fólki í deildinni. Takk fyrir samstarfið.“