Afar umdeild ákvörðun menntaskóla á Íslandi: „Af­skræming tungu­málsins í skjóli rétt­trúnaðar“

Á­kvörðun um að breyta nafni starfs­manna­funda í Mennta­skólanum við Sund í starfs­fólks­fundi fær mis­jafnar undir­tektir. Þetta kemur fram í Frétta­blaðinu.

Hjá MS fengust þær upp­lýsingar að um væri að ræða sömu breytingu og að tala frekar um öll vel­komin í stað þess að á­varpa alla vel­komna. Þetta væri gert til þess að engin væru skilin út undan. Skoðanir um málið væru þó skiptar í kennara­liðinu.

Njörður P. Njarð­vík, prófessor emeritus, lýsir lítilli hrifningu með að orðið starfs­manna­fundur þyki ekki lengur tækt.

„Ég spyr: Eru þá engir starfs­menn lengur við þennan skóla?“ segir Njörður. „Þetta er af­skræming tungu­málsins í skjóli rétt­trúnaðar.“

Í grein sem Njörður ritaði í Frétta­blaðið fyrir stuttu benti hann á að orðið maður er heiti á tegund spen­dýra og tekur til karl­manna, kvenna, barna, trans fólks og kyn­leysingja.

„Þegar við segjum: allir vel­komnir, tekur það til allra sem til­heyra þessari tegund án vísunar til sér­staks kyns,“ skrifaði Njörður í grein sinni og benti einnig á að á Ís­landi gæti kona verið herra ef hún situr í ríkis­stjórn.

„Ég held að menn þurfi að reyna að átta sig á því hvað orðið maður þýðir.“

Ei­ríkur Rögn­valds­son, prófessor emeritus, hafði ekki heyrt af því að stofnanir landsins væru að banna orðið starfs­manna­fundur. Hann segist styðja breytinguna og skilur rót breytinganna. Málið sé þó ekki alveg ein­falt.

„Al­mennt skil ég þessa til­hneigingu að fólk reyni að komast hjá því að nota sam­setninguna „maður“ af því að orðið tengist karl­mönnum ó­neitan­lega mikið í hugum fólks,“ segir Ei­ríkur. Þá telur hann til bóta í þessu sam­hengi að orðið starfs­fólk sé full­kom­lega viður­kennt.