Æsku­vinur Stefáns segir söknuðinn ó­bæri­legan: „Hann spurði hvort hann gæti hringt í mig. Ég sá ekki þau skila­boð. Svo hvarf hann“

Jón Óðinn Wa­age, æsku­vinur Stefáns Arnars Gunnars­sonar, sem hvarf í byrjun mánaðar, skrifar hjart­næman pistill um vin sinn á Akur­eyri.net í dag.

Litlar vís­bendingar hafa borist lög­reglu vegna málsins en á tíma­bili tóku yfir 100 björgunar­sveitar­menn þátt í leitinni.Jón segir að leiðir hans og Stefáns lágu fyrst saman þegar hann var 10 ára.

„Hann sat þá til borðs með mér og júdó­krökkunum þegar verið var að af­henda ár­legar viður­kenningar fyrir Ís­lands­meistara­titla. Frændi hans hafði orðið Ís­lands­meistari en ekki komist svo ég bað hann um að taka við verð­launum fyrir hönd frænda síns. Það gerði hann og endaði á mynd í bæjar­blaðinu sem einn af þeim sem höfðu orðið Ís­lands­meistarar í júdó. Hann fékk að heyra það reglu­lega frá mér næstu rúm­lega þrjá­tíu árin að þetta hefði verið há­punkturinn á ferli hans,“ skrifar Jón.

Leiðir þeirra lágu næst saman í ræktinni en Stefán arnar var einn af fasta­gestum í spinning tímum Jóns.

„Af og til laumaði ég með þunga­rokki af klassísku gerðinni honum til mikillar gleði. Við spjölluðum oft í ræktinni og með tímanum urðum við góðir vinir. Hann var eld­klár, sjálf­stæður og ó­hræddur við að gagn­rýna það sem honum fannst miður.“

„Þegar ég flutti út til Sví­þjóðar fyrir átta árum síðan var ég ekki í góðu jafn­vægi. Al­var­legt þung­lyndi þjáði mig með öllum þeim myrku hugsunum sem því fylgir. Ég ræddi það ekki við nokkurn mann, en á ein­hvern undar­legan hátt skynjaði hann það. Það fór svo að við spjölluðum oft saman þó svo að við værum alltaf í sitt­hvoru landinu, ég í Sví­þjóð en hann ýmist á Ís­landi, í Þýska­landi eða í Fær­eyjum. Það voru góð sam­töl. Hægt og ró­lega fór hann að opna á líðan sína, honum leið ekki vel og hafði senni­lega aldrei gert það,“ skrifar Jón.

Stefán gekk sjálfur út af heimili sínu í Hafnar­firði 2. mars. Daginn eftir bárust vís­bendingar um að beina ætti letinni sér­stak­lega að Álfta­nesinu leitaði björgunar­sveitin þar dögum saman.
Jón segir Stefán Arnar hafa byggt í kringum sig múr sem hann hleypti engum inn fyrir. „Ég benti honum oft á þetta og hann sam­sinnti því en sagðist ekki þora eða vita hvernig hann ætti að brjóta þennan múr niður. Hann hafði lagt allt sem hann hafði að gefa í að þjálfa aðra og hjálpa þeim, hann skildi ekkert eftir fyrir sig sjálfan.“

Hann segir að þjálfunar­starfsið hafi skipt þá báða miklu máli en „þegar maður er þannig brennur maður svo mikið fyrir starfið að sam­skipti við annað fólk verða oft sér­stök vegna þess að það fólk sér ansi oft ekki hlutina í sama ljósi.“

„Þá þykir maður erfiður og er það, en þeir sem eru á hliðar­línunni geta aldrei séð sömu heildar­myndina og sá sem þjálfar. Það skilur fólkið á hliðar­línunni sjaldnast og þá verða á­rekstrar. Vinur minn var eins og ég, hafði ekkert um­burðar­lyndi gagn­vart þessu fólki,“ skrifar Jón.

„En í­þrótta­pólitík á Ís­landi er grimmi­leg og fólk hikar ekki við að reka hnífinn í bakið á jafn­vel sam­herjum. Bakið á vini mínum var sundur­stungið,“ bætir hann við.

Jón segir að fyrir fjórum árum var hann langt niðri „en eins og alltaf sagði ég engum frá því.“

„Vinur minn skynjaði það og sendi mér mynd­band af við­tali við mann sem lifði af sjálfs­morðs­til­raun. Maðurinn hafði stokkið fram af hárri brú. Hann sagði að um leið og hann hefði sleppt takinu hefði hann séð eftir stökkinu. Vinur minn sagði að það væru til fjöldinn allur af svona frá­sögnum og þetta væri aldrei svarið. Svona var þessi vinur minn, hann skynjaði van­líðan mína og kom þá hreint og beint fram, ekkert farið í kringum hlutina. Hann gerði mér fylli­lega ljóst að væri ég í svona hug­leiðingum þá væri það rangt af mér.“

„Fyrir nokkrum vikum hafði hann sam­band við mig og sagðist vera mjög langt niðri eftir enn eina hnífs­tunguna í bakið. Við spjölluðum lengi. Ég hafði oft hvatt hann til að fara til sál­fræðings til að reyna að brjóta niður múrinn og hann hafði reynt það, en núna sagði ég honum að hann yrði að gera það. Nokkrum dögum seinna heyrði ég í honum og þá hafði hann spjallað tvisvar við sál­fræðing og sagði það hafa gengið vel. Daginn eftir sendi hann mér skila­boð og spurði hvort hann gæti hringt í mig. Ég sá ekki þau skila­boð. Svo hvarf hann.

Elsku vinur minn Arnar Gunnars­son, ég sakna þín á­kaf­lega,“ skrifar Jón að lokum.