Jóhann Gunnar Arnarsson danskennari og bötler og Kristín Ólafsdóttir blómaskreytir og upplifunar- og þjónustustjóri Þjóðleikshúsins verða hjá Sjöfn Þórðar í þættinum Matur & Heimili á mánudagskvöld:
Hjónin Jóhann Gunnar Arnarsson, sem er alla jafna kallaður Jói, danskennari og bötler sem þekktur er úr þáttunum Allir geta dansað og eiginkona hans Kristín Ólafsdóttir sem er upplifunar – og þjónustustjóri Þjóðleikhússins eru sannkallaðir fagurkerar og matgæðingar sem leggja mikla áherslu á að hafa fallegt í kringum sig og laga ljúffengan mat. Þau byrja snemma að undirbúa jólin og eru iðin við halda í hefðir og siði með nýjungum í bland. Aðventan spilar stór rullu í lífi þeirra hjóna og eitt af því sem þau hafa mikla ánægju af er að brytja uppá ljúffengum aðventudögurði fyrir nána vini og vandamenn.
Samheldin hjón sem elska að dekka upp fyrir veisluhöld
Kristín sem er að alla jafna kölluð Kiddý er menntaður blómaskreytir og framleiðslumeistari svo hún leggur sig fram af miklum metnaði við jólaskreytingarnar. Hjónin eru sérstaklega samheldin. „ Við höfum ávallt unnið hlutina í samvinnu og hugum að hverju smáatriði þegar kemur að því að bera fram sælkera veitingar og dekka upp hátíðarborð sem passar við þemað að hverju sinni,“ segja hjónin Kiddý og Jói. Þau hafa unnið mjög mikið saman í gegnum tíðina. Þau ráku meðal annars blómabúð á Akureyri og í tæp tíu ár, störfuðu sem ráðsmenn og staðarhaldarar á Bessastöðum. Þau hafa unnið mikið fyrir Múlakaffi í nokkur ár, bæði í Eldar Lodge í Úthlíð og eins skipulagt þjónustuna á stóru árshátíðum. Undanfarin sumur hafa þau séð um rekstur veiðihúsanna við Selá og Hofsá í Vopnafirði.
Aðventu- og jóladögurður framreiddur með hátíðarbrag
„Okkur finnst mikilvægt að flækja hlutina ekki of mikið og hafa þetta ekki alltof þungt. Aðalmálið er að hitta fjölskylduna og vini. Við viljum helst byrja á súpu, og hafa svo góða blöndu af fiski, kjöti og einhverskonar eggjum til dæmis egg benedict eða hrærð egg. Þegar kemur að aðventunni eru nokkrir hlutir sem eru ómissandi,“ segir Jói og finnst fátt skemmtilegra að enn nostra við ýmis konar smárétti í eldhúsinu. Jói mun meðal annars spreyta sig á hleyptum eggjum, epla- og wasabi salati, þar sem íslenskt wasabi er í forgrunni. Hjónin munu framreiða glæsilegan aðventudögurð ásamt spennandi nýjungum sem gestir þeirra munu standa á öndinni yfir. Þau svipta hulunni af aðventu- og jóladögurði ársins og leyfa áhorfendum að skyggnast í þeirra jólasiði og hefðir sem hafa mótast í áranna rás.
Þátturinn Matur og Heimili er sýndur alla mánudaga á Hringbraut klukkan 20.30 og aftur klukkan 22.30.
