Aðalheiður spákona um Covid-ástandið: „Þetta er ekki búið, langt frá því“

„Næsta ár verður svolítið erfitt,“ sagði Aðalheiður Ólafsdóttir, spákona og miðill, í áramótaþætti N4 á dögunum. Þar spáði hún í spilin fyrir nýja árið og lagði mat á komandi tíma í heimsfaraldrinum.

Eins og flestir vita er stór kórónuveirubylgja í gangi innanlands og hafa um og yfir þúsund manns verið að greinast smitaðir á hverjum degi. Aðalheiður segir að við þurfum áfram að berjast við veiruna út þetta ár og jafnvel lengur.

„Það koma smávegis bylgjur eins og hafa verið að koma, ekki samt eins slæmar. Þetta er ekki búið, það er eiginlega langt frá því, því miður, en þetta smá mjakast niður á við,“ sagði hún og bætti við að það sem skiptir máli er að fólk passi vel upp á sig.

„Ég sé að fólk fer að líta bjartari augum fram á við fljótt á nýju ári. Næsta ár fer þetta aðeins að lagast og það sem mér er sýnt er að þetta verður næstu tvö, þrjú árin, en ekki svona slæmt. Þetta verður alltaf smávegis en þetta kemur. Við þurfum að vera þolinmóð og passa okkur."

Aðalheiður var einnig spurð út í fleiri atriði, til dæmis ríkisstjórnarsamstarfið. Hún er ekki mjög bjartsýn á að það gangi jafn vel og á síðasta kjörtímabili og býst raunar við stjórnarslitum á næstu misserum.