Eitt glæsilegasta einbýlishús landsins er nú til sölu en um er að ræða rúmlega 500 fermetra hús við Haukanes 13 á Arnarnesi. Eins og flestir vita kosta einbýlishús á þessum slóðum skildinginn, en ásett verð á umræddri eign er 295 milljónir króna.
Húsið sem um ræðir er í eigu Lilju Hrannar Hauksdóttur, sem er oft kennd við tískuvöruverslunina Cosmo, að því er segir í umfjöllun Smartlandsins.
Í sölulýsingu segir meðal annars að um sé að ræða virkilega vel byggt og vandað hús í alla staði með sérsmíðuðum innréttingum, aukinni lofthæð á báðum hæðum, mjög stórum flísalögðum bílskúr, extra háum innihurðum, fallegum listum í loftum og extra háum hvítum gólflistum.
„Húsið að utan er í góðu ástandi og var allt málað að utan árið 2019, þ.m.t. þakkantur og gluggar. Að innan er eignin virkilega vönduð með sérsmíðuðum innréttingum, nýlegu eldhúsi og tækjum.“
Neðri hæð hússins er tæpir 240 fermetrar og býður hún upp á ýmsa möguleika. Til dæmis er vel hægt að gera þar aukaíbúð. Þar er meðal annars að finna tvö barnaherbergi, snyrtingu og stórt baðherbergi.
Efri hæðin er 277 fermetrar en gengið er upp á hana úr holi neðri hæðar um glæsilegan steyptan bogadreginn og marmaralagðan stiga með harðviðarhandriði og gluggum til suðurs. Þar er meðal annars að finna arinstofu, sjónvarpsstofu, setustofu, borðstofu, eldhús, baðherbergi, tvö barnaherbergi og hjónaherbergi. Hjónaherbergi er með útgengi á stórar og skjólsælar suðursvalir með heitum potti.
Bílskúrinn er svo algjör draumur, eða 100 fermetrar að stærð og inn af honum er 30 fermetra herbergi sem er steinteppalagt. Húsið að utan er sagt vera í góðu ástandi, nýlega málað sem og allt tréverk. Þá er þakefni nýlegt og þakrennur og niðurföll eru í góðu ástandi.
Lóðin sem fylgir húsinu er stór og mikil, eða 1.222 fermetrar og afgirt að miklu leyti. Hún snýr að mestu til suðurs þar sem eru tyrfðar flatir, malarbeð og stór og skjólsæl viðarverönd. Húsið er á góðum, rólegum og eftirsóttum stað og er útsýni úr því allt hið glæsilegasta, meðal annars út á sjóinn, að Snæfellsjökli, Esjunni og víðar.
Áhugasamir geta kynnt sér eignina nánar hér.
