Vertu snillingur í hagnýtum húsráðum með þessum einföldu upplýsingum

Áður fyrr gengu húsráð kynslóða á milli líkt og uppskriftir. Hver fjölskylda lumaði á mismunandi ráðum til þess að takast á við sameiginlegan óvin sinn, rykið og drulluna. Í dag er þetta sem betur fer orðið einfaldara og með tilkomu Internetsins getur hver sem er orðið snillingur í húsráðum.

Hér fyrir neðan getur þú lesið nokkur einföld og hagnýt húsráð sem vonandi gagnast þér vel:

Rúmdýnan

Helltu vodka í úðabrúsa og úðaðu yfir alla dýnuna. Láttu hana svo standa þar til hún þornar. Áfengið eyðir bakteríum og vondri lykt úr dýnunni.

Örbylgjuofninn

Skerðu sítrónu í tvennt og skelltu henni í skál með vatni. Hitaðu þetta í örbylgjuofninum þar til vatnið sýður, láttu skálina svo standa í lokuðum örbylgjuofninum svo gufan vinni sitt gagn. Síðan getur þú opnað og þurrkað öll óhreinindin út með minnstu fyrirhöfn.

Fitublettir

Ef þú krítar yfir fitubletti sem myndast hafa á veggjunum og bíður í nokkrar mínútur geturðu þurrkað þá af með rökum klút eins og ekkert sé. Þetta virkar líka á föt!

Þurrkaðu skóna

Troddu dagblöðum inn í blauta skóna og þá eru þau fljót að draga í sig mestu bleytuna.

Gæludýrahár 

Það er erfitt að eiga gæludýr þegar maður er með teppi á gólfinu enda festast hár dýranna í teppinu og það sama hversu mikið þú ryksugar, þú bara nærð þeim ekki úr. Þú getur hins vegar sópað teppið með gúmmí gluggasköfu og þá er sagan öll.

Handklæði í þurrkarann

Skelltu einu þurru handklæði með fötunum þínum í þurrkarann. Taktu það út fimmtán mínútum síðar. Handklæðið hefur dregur í sig mikið af bleytunni og styttir tímann sem það tekur að þurrka fötin.

Blandarinn

Eftir að þú hefur blandað þér drykk og hellt honum í glas, settu þá vatn og dropa af uppþvottalegi í blandarann, kveiktu á honum – búðu til froðusmoothie – helltu öllu í vaskinn skolaðu með hreinu vatni og láttu þorna.

Leðrið

Hægt er að gera leðrið fallegt og gljáandi á ný með skóáburði.

Grillið

Skerðu lauk í helminga og notaðu gaffal til þess að nudda honum við grindina á heitu grillinu. Þetta þrífur grillið ásamt því að bragðbæta steikina.

Varalitur í fötum

Úðaðu hárspreyi á blettinn, láttu standa í tíu mínútur, þurrkaðu varlega með rökum klút og þvoðu svo flíkina eins og vanalega.

Brenndir pottar og pönnur

Settu vant í botninn á pottinum/pönnunni og bættu við bolla af ediki. Láttu þetta malla á hellunni og bættu við tveimur matskeiðum af matarsóda. Helltu síðan úr pottinum/pönnunni og nuddaðu blettina í burtu, þeir ættu að vera orðnir vel lausir.

Sturtuhausinn

Settu edik í glæran plastpoka (nestispoka) og festu utan um sturtuhausinn með teygju. Láttu sturtuhausinn liggja í vökvanum í klukkutíma eða yfir nótt og þurrkaðu óhreinindin burt með tusku.

Glansandi glös

Eru glösin orðin gruggug? Úðaðu smá ediki á glasið og þurrkaðu af með eldhúspappír.

Álpappír til bjargar eldfasta mótinu

Eldfasta mótið vill oft verða leiðinlegt með tímanum og stundum er erfitt að skrúbba burtu mat brunnið hefur fastur við mótið. Ef þú býrð til kúlu úr álpappír og skrúbbar mótið með kúlunni og smá sápu verður þetta leikur einn.

Uppþvottavélin

Þó uppþvottavélin þrífi diskana og glösin með glæsibrag verður hún samt óhrein að innan. Þá er gott að skella engu nema skál eða könnu fullri af ediki í efri rekkann, stilla hana á háan hita og setja í gang. Þar á eftir skaltu dreifa smá matarsóda í botninn á vélinni og kveikja aftur á henni. Að því loknu mun hún glansa.

Silfur hnífapör

Það getur verið þreytandi að halda silfur hnífapörum glansandi fínum, en ef þú þekur stórt mót með álpappír og setur hálfan bolla af salti á móti hálfum bolla af matarsóda, fyllir svo með heitu vatni og lætur hnífapörin liggja þar í 30 mínútur þarftu bara að skola þau vel og þurrka þau.

Æla

Ef þú verður fyrir því óláni að einhver æli í sófann eða á teppið skaltu ekki örvænta. Búðu til leðjukennda blöndu af matarsóda og vatni og dreifðu því yfir svæðið með spaða. Láttu þetta þorna yfir nótt og þú getur ryksugað þetta upp daginn eftir.

Brauðgrillið

Ef þú þrífur það ekki strax verður það alveg ómögulegt, en prufaðu þetta: Þegar þú ert búin/n að nota grillið skaltu skella nokkrum blautum eldhúsbréfum á grillið og loka því. Hitinn sem eftir er í grillinu mun þá hreinsa það. Þurrkaðu yfir með öðru eldhúsbréfi að þessu loknu.