Talar um typpin í kvöld - sigga dögg: „ég held að við séum svo vön að tala um píkurnar - en svo er bara algjör þögn um typpi“

Sigga Dögg kynfræðingur verður með fræðslufyrirlestur og uppistand um typpið í kvöld. Sigga sem hefur kennt kynfræðslu á öllum skólastigum í áratug segir fólk vant því að tala um píkuna en að algjör þögn hafi verið um typpin.

„Ég er búin að komast að því að þegar maður opnar á umræðuna og gefur strákum rými, þá iðulega koma strákar eftir að tímanum lýkur og spyrja og spyrja,“ segir Sigga Dögg við Morgunútvarpið á Rúv. „Það er kannski 13-14 ára drengur sem er illt í typpinu en enginn hefur nokkurn tímann talað við hann um typpið á honum. Ég held að við séum svo vön að tala um píkurnar, því blæðingar og sveppasýkingar, alltaf eitthvað djöfulsins vesen þarna niðri. En svo er bara algjör þögn um typpi.“

Á fyrirlestrinum sem Sigga Dögg verður með í kvöld á Kex Hostel verður hægt að senda inn nafnlausar spurningar sem hún mun fletta upp og svara á meðan á fyrirlestrinum stendur.

Í viðtalinu segir Sigga að mikil vanþekking sé á typpum og sem dæmi nefnir hún of þrönga forhúð sem sé algengt vandamál en lítið rætt. Vonast hún til þess að geta opnað umræðuna um typpi á fyrirlestrinum og að í kjölfar hans eigi fólk auðveldara með að tala um það.

„Mér hefur fundist þetta algjörlega hafa orðið á eftir. Mér fannst alveg fyndið í sumar þegar það kom pistill í Fréttablaðinu um píkudaga í Háskólanum sem sagði, „Það yrði nú eitthvað sagt ef það yrðu typpadagar.“ Og ég var bara eitthvað, er það? Og leit á það sem áskorun,“ sagði Sigga í Morgunútvarpinu. Þá segist hún reikna með því að kynjahlutfallið verði ekki jafnt í kvöld og telur hún líklegt að það verði um 80% konur.