Tækifæri sem ekki er víst að komi aftur í bráð

Tækifæri sem ekki er víst að komi aftur í bráð

 

Egill Helgason benti réttilega á það í pistli á Eyjunni að í umræðu um kosningarnar hefur meir farið fyrir bollaleggingum um skiptingu ráðherrastóla en málefni og mögulegan framgang þeirra.

Peningamálin hafa ekki þótt sérlega spennandi viðfangsefni. Eigi að síður eru þau sá ás sem flest annað snýst um. Heitast brenna þau á heimilunum vegna hárra vaxta. En jafnvægisleysið leiðir til sóunar og er ein ástæðan fyrir því að Ísland stenst ekki grannlöndunum snúning þegar kemur að framleiðni í þjóðarbúskapnum.

Aukinn kaupmáttur hefur fyrst og fremst byggst á aukinni vinnu. Markmiðið er hins vegar að ná stöðu grannlandanna þannig að unnt reynist að auka kaupmátt með jafn mikilli vinnu. Stöðugur gjaldmiðill er eitt af skilyrðunum fyrir því að þetta sé hægt. Það er heldur ekki unnt að eyða þeirri mismunun sem nú ríkir, þar sem sumir geta starfað utan krónuhagkerfisins en aðrir ekki, nema með kerfisbreytingu.

Málefnastaðan er sú að stjórnarflokkarnir og VG andæfa kerfisbreytingu. Viðreisn, Björt framtíð og Samfylking hafa talað fyrir breytingum. Samtöl Samfylkingar og Bjartrar framtíðar við Pírata og VG benda aftur á móti ekki til að þetta lykil mál í stjórn efnahagsmálanna verði sett sem skilyrði fyrir stjórnarþátttöku.

Vandinn sem við blasir er brýnn. Ríkisstjórnin skilur við vinnumarkaðinn í uppnámi. Forystumenn launafólks tala um verkfallsátök í byrjun næsta árs. Gerist það er veruleg hætta á að það sem áunnist hefur fari forgörðum

Eftir myndun ríkisstjórnarinnar 2013 kölluðu Alþýðusambandið og Samtök atvinnulífsins eftir samtölum við ríkisstjórnina um nýja stefnu í peningamálum. Hún lofaði þá að skipa starfshóp til að vinna að breyttri peningastefnu. En einhverra hluta vegna sveik hún það loforð.

Þegar þjóðarsáttin var gerð 1990 sannfærðu aðilar vinnumarkaðarins þáverandi vinstri stjórn undir forystu Steingríms Hermannssonar til að ákveða fastgengisstefnu. Tvær næstu ríkisstjórnir undir forystu Davíðs Oddssonar héldu því striki að mestu. Fyrir vikið varð tíundi áratugurinn einn sá hagfelldasti á síðustu öld. Þar komu líka til kerfisbreytingar í sjávarútvegi og aðild að innri markaði Evrópusambandsins.

Kjarni málsins er að gengisfestan var forsenda þjóðarsáttar 1990. Eigi SALEK-samkomulagið að verða að veruleika nú er gengisstöðugleiki forsenda þess að það virki eins og aðilar vinnumarkaðarins kölluðu eftir fyrir þremur árum. Ef menn nota ekki tækifærið við stjórnarmyndun nú til að knýja fram breytingar er hætt við að upplausnin sem blasir við að öllu óbreyttu eftir áramót sendi landið í enn eina óvissuferðina.

Aðstæður eru einstaklega góðar til að stíga þetta skref nú. Verðbólga er lítil eins og sakir standa. En það sem mestu skiptir er að í dag ráðum við yfir öflugum gjaldeyrisvarasjóði sem er grundvöllur kerfisbreytingar af þessu tagi. Nái upplausnin yfirhöndinni á vinnumarkaðnum eftir áramót breytast þessar aðstæður fljótt. Þá er tækifærið farið.

Það er í þessu ljósi sem það liggur í augum uppi að einmitt þetta viðfangsefni verður að vera uppistaðan og ívafið í samningum um næstu ríkisstjórn ef vel á að vera. Það er ekki unnt að skjóta því inn í framtíðina.

Viðreisn hefur kynnt kerfisbreytingu með myntráði til þess að ná þessu markmiði. Annar kostur væri aðild að evrópska myntbandalaginu. Hún gæti verið pólitískt snúnari á þessum tímapunkti.

Sennilega þarf breiða ríkisstjórn sem hefur trúnað bæði samtaka launafólks og atvinnulífs til þess að koma þessu stóra máli áfram. Ef menn hugsa í raun um lífskjör og undirstöður velferðarkerfisins til lengri tíma er þetta stærsta málið sem kosningar og stjórnarmyndun eiga að snúast um.

Við höfum tækifæri núna. Það er ekki víst að það komi aftur í bráð.

 

 

Nýjast