Fyrrverandi borgarstjóri hjólar í borgarstjórn: „Skuldir vaxa dag frá degi og eru nú í hæstu hæðum"

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson fyrrverandi borgarstjóri segir glundroða ríkja í núverandi borgarstjórn í skoðanapistli sem birtist í Morgunblaðinu í morgun.

Vilhjálmur segir stjórnsýsluborgarinnar fara síversnandi undanfarin ár, skuldir vaxa dag frá degi og óratíma taka að afgreiða einstök mál. „Endalausar tafir sem kosta fyrirtæki og íbúa verulegar fjárhæðir, einkenna nú stjórnsýslu Reykjavíkurborgar,“ segir hann.

Hann gagnrýnir áætlun borgarinnar varðandi íbúaráð en nýlega var tilkynnt að breytingar yrðu á skipan og hlutverki ráðsins auk þess sem að þeim fjölgi úr níu í tíu og laun ráðsmannanna verði hækkuð.

„Hinn almenni borgarbúi hefur nánast ekkert verið upplýstur um þetta mál. Ekki er gerð grein fyrir auknum kostnaði við rekstur íbúaráðanna sem af þessum breytingum leiðir en núverandi kostnaður er á bilinu 60-70 milljónir króna,“ segir hann.

Hlutverk íbúaráðanna er óljóst að mati Vilhjálms og ekki hefur verið gert nægilega vel grein fyrir því hvernig þau eigi að vera tengiliður íbúa inn í miðlæga stjórnssýslu borgarinnar eða hafa góð tengsl við íbúa og starfsemi hverfanna.

„Ljóst er að margar af þeim tillögum um íbúaráðin sem nú liggja fyrir munu flækja og gera stjórnsýslu borgarinnar erfiðari og flóknari,“ segir hann.

Vilhjálmur bendir á að ráð og nefndir borgarinnar hafi aðeins tvær vikur til að skila inn tillögum um breytingar á skipan og hlutverki íbúaráða. „Síðan má spyrja, hvenær gefst íbúum borgarinnar kostur á að tjá sig um þessar tillögur um íbúaráðin.“