Stærsti minnihluti ræður för

Stærsti minnihluti ræður för

 

Lagabreytingar vegna búvörusamninganna eru ugglaust pólitískasta málið sem Alþingi hefur afgreitt á þessu haustþingi.  Það voru því mikil tíðindi þegar í ljós kom að aðeins helmingur þingmanna stjórnarflokkanna greiddi þeim atkvæði og innan við þriðjungur allra þingmanna.

Búvörusamningarnir sjálfir komu ekki til kasta Alþingis. Þannig fékk Alþingi ekki að fjalla um þá einhliða ákvörðun ráðherra að binda hendur fjárveitingavaldsins í áratug með 13 milljarða króna verðtryggðum framlögum á hverju ári. Það voru bara greidd atkvæði um lagabreytingar sem fylgdu samningunum.

Samfylkingin segir að ríkisstjórnin hafi lofað að samningarnir væru opnanlegir. Lagatextinn ber það hins vegar ekki með sér. Eftir stendur að Bændasamtökin ráða því ein og sér hvort þau fallast á opnun.

Skynsamlegt er að taka ákvarðanir í þessum efnum til nokkurra ára. En það samrýmist illa stjórnarskránni að framselja fjárveitingavaldið til ráðherra án þess að ákvarðanir hans þurfi að koma til staðfestingar á Alþingi.

Nú er algengt að minnihluti þingmanna standi að baki lagasetningu. Hjáseta og fjarvistir skýra það. Hitt er sjaldgæft að heit pólitísk mál séu samþykkt með þeim hætti. Gerist það aftur á móti  ber það yfirleitt vott um veikleika þeirrar ríkisstjórnar sem í hlut á hverju sinni.

Ríkisstjórnin náði ekki samstöðu um að leggja fram fjárlagafrumvarp. Og nú tekst henni aðeins að fá helming stjórnarþingmanna til þess að greiða heitasta máli sínu atkvæði. Í raun endar hún því feril sinn eins og  minnihlutastjórn.

Þó að ríkisstjórnin hafi náð árangri í stjórn ríkisfjármála og við slit þrotabúa gömlu bankanna situr hún uppi með þá staðreynd að ljúka kjörtímabilinu án þess að hafa vald á stærstu málum. Í því ljósi er erfitt fyrir hana að óska eftir endurnýjuðu umboði. Hún getur ekki beðið um traust út á það sem hún var en er ekki lengur.  

Ef stjórnarandstöðuflokkarnir hefðu viljað koma fram sem trúverðugur ríkisstjórnarkostur hefðu þeir þurft að nota þetta viðkvæma mál til þess að sýna þá samstöðu. Veikleiki ríkisstjórnarinnar í atkvæðagreiðslunni var það mikill að alveg er hugsanlegt að stjórnarandstaðan hefði með samstöðu getað knúið fram stefnubreytingu.

Þó að það hefði ekki tekist hefði samhent stjórnarandstaða í öllu falli getað knúið efasemdarmenn í stjórnarliðinu til að greiða atkvæði með frumvarpinu. Þeir hefðu þá lent í þeirri klípu að standa með eigin orðum eða ríkisstjórninni. Stjórnarandstöðuflokkarnir höfðu hins vegar ekki innri styrk til þess að láta á það reyna.

Það eru veik skilaboð. Eftir þetta geta stjórnarandstöðuflokkarnir ekki með  trúverðugum hætti haldið því fram að eitthvert  innihald sé í orðum þeirra um  samstarf gegn núverandi stjórnarflokkum.

Niðurstaðan er sú að rétt fyrir kosningar er það ekki meirihluti heldur stærsti minnihluti þingsins sem ræður úrslitum í svo viðamiklu máli.

Myndun næstu ríkisstjórnar verður augljóslega flóknari en svo að valið standi aðeins á milli núverandi stjórnar og stjórnarandstöðu.

 

Nýjast