Rúv-skekkjan löguð með meiri skekkju!

Ef sterk staða ríkisins á fjölmiðlamarkaði er skekkja; hvers vegna þá að laga hana með því að ríkið auki hlut sinn? Hvers vegna spyr Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra sig ekki þessarar spurningar? Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri hjá Símanum ræðir við Jón G. Hauksson í kvöld um hlut ríkisins á fjölmiðlamarkaði. Skekkjan er mikil á fjölmiðlamarkaðnum. RÚV fær 4,7 milljarða kr. í forgjöf frá skattgreiðendum og er mjög aðsópsmikið á markaði sjónvarpsauglýsinga, eða með yfir 2,3 milljarða kr. í auglýsingatekjur. Frjálsu einkareknu fjölmiðlarnar eiga á sama tíma í vök að verjast en ætla má að vel yfir 20 fjölmiðlafyrirtæki séu í landinu þegar útgáfufélög tímarita og héraðsfréttablaða eru talin með. Í stað þess að laga skekkjuna, sem ríkisvaldið hefur samþykkt að sé á markaðnum með svo sterkri stöðu RÚV, þá bætir það um betur og hyggst laga skekkjuna með því að ríkið auki hlut sinn.