Orri hauksson, forstjóri símans: borgin fer á mis við hundruð milljóna

Orri Hauksson, forstjóri Símans, segir að Gagnaveita Reykjavíkur, sem er í eigu OR sem aftur er að langmestu í eigu Reykvíkinga, fari á mis við hundruð milljóna króna í tekjur á ári með því að meina Símanum að ljósleiðarakerfi sínu. Í stað þess að veita Símanum eðlilegan aðgang að „þessu vegakerfi“ borgarbúa stuðli þetta borgarfyrirtæki að því að endurgrafið verði að tugum þúsunda íbúða á suðvesturhorninu á næstu árum með tilheyrandi raski og tvíverknaði.

Gagnaveitan hefur fjárfest í fjarskiptalögnum að 100 þúsund heimilum á suðvesturhorninu, fyrir um 32 milljarða á núvirði. Ljósleiðarar eru með nær óendanlega burðargetu sem margir geta notað. Fyrirtækið er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur sem er sameignarfélag í eigu Reykjavíkurborgar (94%), Akraneskaupstaðar (5%) og Borgarbyggðar (1%) sem aftur sækir ábyrgð til íbúannað sjálfra.

Orri er gestur í viðskiptaþætti Jóns G. Haukssonar og þar kemur fram að Gagnaveitan vill allt eða ekkert þegar kemur að samskiptum við Símann - og er ekki tilbúin til að veita Símanum aðgang að hluta ljósleiðarakerfisins, eins og óskað hefur verið eftir. Síminn á fyrirtækið Mílu sem heldur utan um ljósleiðarakerfi Símans.

Að sögn Orra eru viðhorf borgarinnar sem eiganda Orkuveitu Reykjavíkur og þar með Gagnvaveitunnar önnur en annarra sveitarfélaga á Íslandi og Norðurlöndunum. Innan stjórnenda Orkuveitunnar og Gagnaveitunnar sé mikil andstaða fyrir aðgang Símans að óvirkum innviðum, svokölluðum svörtum ljósleiðara.

Í viðtalinu við Jón G. segir Orri að önnur sveitarfélög veiti aðgang að sínum kerfum og hafi önnur viðhorf en borgin. Hann nefnir fyrirtækið Tengi á Akureyri sem sé gott dæmi þar um en fyrirtækið er að hluta til í eigu Akureyrarbæjar.

Orri skrifaði nýlega athyglisverða grein þar sem hann líkir fjarskiptanetinu við vegakerfið og segir að besta lausnin sé auðvitað að gefa sem flestum færi á að aka um vegi landsins. Það eigi ekki að skipta máli hverjir eigi rúturnar eða bílana almennt. Greinin ber yfirskriftina: Á Vegagerðin að eiga rúturnar?

 „Hundruð þúsunda ferðamanna nýta nú langferðabíla á ferðum sínum milli náttúruperlna, þannig að viðhald og uppbygging vega hefur vart undan álaginu. Mitt í þessu ati hefur engum dottið í hug að leggja til að Vegagerðin reki sjálf hin stórvirku samgöngutæki, sem aka á vegum landsins,“ segir Orri í grein sinni sem birtist sem skoðun á visi.is

 „Þetta er svipað og ef Vegagerðin gerði fyrirtækjum í ferðaþjónustu það skilyrði að nýta eingöngu langferðabíla frá Vegagerðinni sjálfri. Kynnisferðum, Gray Line og Snæland Grímssyni byðist þannig að nota eigin vörumerki og söluvefi til að selja sæti, en þó aðeins í þeim rútum sem Vegagerðin útvegar. Bifreiðar frá fyrirtækjunum sjálfum fengju ekki aðgang að hinu opinbera vegakerfi. Vegagerðin mundi góðfúslega benda þeim, sem hygðust nýta eigin fararskjóta, á að byggja sér sjálfir nýja vegi undir þá.“