Magnús harðarson hjá jóni g. í kvöld: nítján félög í sjávarútvegi skráð í kauphöllinni árið 2002!

Magnús Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland, er á meðal gesta Jóns G. í kvöld. Þetta er efnismikið viðtal og víða komið við. Það kom öllum á óvart þegar MSCI-vísitölufyrirtækið, Morgan Stanley Capital International, hætti við að taka Kauphöllina inn í vísitöluna á dögunum en væntingar voru um annað. En Magnús og starfsmenn Kauphallarinnar funda í þessari viku með fulltrúum Morgan Stanley út af málinu.

Nýlegar komu fram hugmyndir í fjölmiðlum í kjölfar Samherjamálsins að nokkur ávinningur gæti falist í því að fyrirtæki í sjávarútvegi væru skráð á markaði og að einstaklingar ættu þannig kost á að kaupa í sjávarútvegsfyrirtækjum. Í því gæti falist ákveðin sáttaleið um fiskveiðistjórnunarkerfið og dregið úr óróa í kringum það.

Þegar Magnús hóf störf í Kauphöllinni voru 75 félög skráð í Kauphöllina og þar af 19 fyrirtæki sem flokkuðst sem fyrirtæki í sjávarútvegi. Þeirra á meðal var Samherji. En upp úr 2005 tók þeim að fækka nokkuð – sem og urðu tvær afgerandi sameiningarí greininni; Grandi og Haraldur Böðvarsson; Síldarvinnslan og SR-mjöl.

Núna eru tvö fyrirtæki í sjávarútvegi skráð í Kauphöllina, Brim (áður HB Grandi) og Iceland Seafood sem kom fyrr á árinu inn á aðallistann eftir að hafa verið skráð á First North listann undanfarin ár.

Þátturinn Viðskipti með Jóni G. er á dagskrá kl. 20:30 í kvöld og á tveggja tíma fresti næsta sólarhringinn. Hægt er að horfa á þáttinn í tímaflakki og ennfremur fer hann á heimasíðu Hringbrautar eftir hádegi á morgun.