Lýðræði og alþjóðasamvinna

Lýðræði og alþjóðasamvinna

 

Hvort styrkjum við eða veikjum lýðræðið með þátttöku í alþjóðasamvinnu?

Því er oft haldið fram að Ísland megi ekki ganga lengra en orðið er í alþjóðasamvinnu fyrir þá sök að það veiki lýðræðið og ógni fullveldinu. Aðrir eru þeirrar skoðunar að þjóðir styrki fullveldið og efli lýðræðið með aðild að alþjóðasamtökum.

Innan Evrópusambandsins ræða menn opið um hættuna á lýðræðishalla milli þjóðþinga aðildarríkjanna og embættismannakerfisins í Brussel. Þó að ákvarðanir séu teknar af ráðherrum með lýðræðislegt umboð og lýðræðislega kjörnum þingmönnum eru áhyggjur manna um lýðræðishalla ekki alveg út í hött.

Við þurfum ekki annað en að horfa á sameiningu sveitarfélaga til að sjá umræður um að samþjöppun valds geti veikt lýðræðið. Það er ýmislegt til í því. Eigi að síður stækka menn sveitarfélög hér eins og í flestum öðrum ríkjum. Yfirleitt byggist það á röksemdum um að samþjöppun valds skili íbúunum skilvirkari og öflugri þjónustu.

Engum vafa er undirorpið að aðild Íslands að innri markaði Evrópusambandsins hefur skilað sér í aukinni hagsæld. Til þess að ná þessum efnahagslega ávinningi höfum við látið þeim þjóðum sem eiga fulla aðild að Evrópusambandinu eftir að móta viðskiptalöggjöfina.

Löggjöfin um aðild að innri markaðnum sætti harðri andstöðu á Alþingi á sínum tíma. Andstaðan meðal kjósenda var þó enn meiri. Hefði frumvarpið farið í þjóðaratkvæði hefði það líklegast verið fellt. Nú andmælir enginn aðildinni. Flestir telja ávinninginn einfaldlega meiri en lýðræðishallann.

Þó að við höfum í raun og veru framselt löggjafarvaldið á mörgum mikilvægum sviðum þjóðarbúskaparins hefur fullveldið ekki veikst. Okkur er frjálst að segja okkur frá þessu regluverki hvenær sem er.

En alþjóðavæðingin hefur búið til stöðu sem ástæða er til að hafa mun meiri áhyggjur af en áhrifavaldi embættismanna og sérfræðinga í Brussel. Lýðræðislega hættan er sú að alþjóðafyrirtæki geti í krafti stærðar sinnar í raun sett þær leikreglur sem henta þeim á mikilvægum sviðum eins og í samkeppnismálum, umhverfismálum og skattamálum.

Þjóðríkin eiga þrjá kosti í stöðunni. Sá fyrsti er að sætta sig við undirtök alþjóðafyrirtækjanna í samkeppninni um að laða þau til sín. Annar er sá að þrengja að þeim með viðskiptahindrunum. Þriðji kosturinn er svo að efla fjölþjóðasamtök eins og Evrópusambandið til þess að styrkja lýðræðislega stöðu þjóðríkjanna með samræmdum leikreglum á mikilvægum sviðum.

Frá sjónarhóli þeirra sem bæði vilja verja frjáls viðskipti og styrkja lýðræðið er virk þátttaka í alþjóðlegu samstarfi afar mikilvæg. Þetta sjónarmið hefur hins vegar engin áhrif á þá sem vilja standa utan við alþjóðlegan markaðsbúskap. Eins er skiljanlegt að þeir sem hlynntir eru markaðsbúskap en vilja ekki jafna stöðuna milli alþjóðafyrirtækja og þjóðríkja séu almennt andvígir fjölþjóðasamtökum eins og Evrópusambandinu.

 

 

 

 

 

Nýjast