Kastljós: tár á hvarmi

Kastljóss-þáttur kvöldsins var frábær.  Gæska, hlýja, greind og mennska sveif yfir vötnunum. Upplýsing afvopnar fólk og einlægnin fylgir svo sannarlega lífsháskanum. Sögurnar frá Ungverjalandi fengu hárin til að rísa og er þá aðeins fátt nefnt úr perlusafni kvöldsins.

Í stofum víða um land hefur eflaust mátt sjá tár blika á hvarmi, jafnt hjá ungum sem eldri. Tár eru stundum til alls fyrst, þótt ein og sér dugi þau ekki til lengdar.

Hafi einhverjir Íslendingar leyft sér að hugsa að flóttafólk frá Sýrlandi gætu orðið afætur á íslenskri grundu fengu hinir sömu tækifæri í kvöld til að sjá hlutina í nýju ljósi. Píslarganga þeirra sem tekst að komast lifandi frá Sýrlandi virðist eins konar þróunarkenning á hreyfingu.

Ríkisútvarpið sannaði mikilvægi tilvistar sinnar í kvöld. Þannig er gott almannaútvarp.