Jógvan: lambakjötið heima ber af

Söngvarinn dáði, Jógvan Hansen var á meðal gesta Lindu Blöndal og Sigmundar Ernis í lífsstílsþættinum Ferðalaginu í liðinni viku og svaraði því þar til af hverju Íslendingar eigi að leggja leið sína til heimalands hans, Færeyja.

Viðtalið má nú sjá hér á vef stöðvarinnar, en þar segir Jógvan að einstaklega þægilegt sé að ferðast á milli eyjanna átján sem til samans mynda Færeyjar, en jarð- og sjávargöng milli helstu eyjanna auðveldi mjög akstur um þær - og hann hvetur einmitt ferðafólk til að vera á ferðinni um eyjarnar; það sé einstök upplifun að fara á milli litlu bæjanna og þorpanna sem raði sér meðfram strandlengju eyjanna, sem vel að merkja sé flestar litlar; ferðamenn séu aldrei lengra frá sjó en fimm kílómetra þegar ekið er upp um grænu fjöllin sem einkenna eyjarnar.

Jógvan segir að snyrtimennska eyjaskeggja veki kannski einna mesta eftirtekt Íslendinga sem fara um Færeyjar, svo og sagan öll og menning þeirra sem sé vel varðveitt, en einnig stórbrotin björg og allar þær náttúrumyndir sem einkenna þverhnípt fjöllin sem skorin eru af veðri, vindum og sjógangi, svo og regninu sem á stundum belji á eyjunum í upp undir 250 daga á ári.

Hann mælir með sjávarfanginu á veitingahúsum Færeyja, en þó sér í lagi vel elduðu lambakjöti sem heimamenn vilji hafa sem lausast á beinunum, en sjálfur sé hann hrifnastur af kjöti sem hafi hangið vel og lengi og tekið sig rækilega.

Ferðalagið er frumsýnt öll mviðkudagskvöld á Hringbraut.