Landsdómsmálið var níðingsverk

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi ráðherra og þingmaður Vinstri grænna tekur sjálfan sig til kostanna í hressilegu Mannamáls-viðtali á Hringbraut í kvöld - og eitt er víst, að þar skortir ekki sögurnar. Þáttinn má nú sjá hér á vef stöðvarinnar.

Hann er Vesturbæingur af 68-kynslóðinni, alinn upp á heimili foreldra sem voru hvort á sínum væng stjórnmálanna og það kenndi Ögmundi að virða ólíkar skoðanir strax á barnsaldri. Hann valdi námslandið fyrr en fagið þegar hann hélt til Edinborgar í Skotlandi og endaði þar á því að læra sagnfræði sem hann taldi góðan grunn fyrir fréttamennsku næstu ára, hjá þáverandi systkinum Ríkisútvarpinu og Ríkissjónvarpinu þar sem þessi skakkmynnti sérfræðingur í erlendum málefnum var húðskammaður fyrir útliti í einu eftirminnilegasta símtali sem hann hefur nokkru sinni átt við áhorfenda úti í bæ; já, hvers vegna í ósköpunum ríkið væri að sýna svona lamaðan mann í hverjum fréttatímanum af öðrum!

Og svo stal hann glæpnum á leiðtogafundi Gorbachevs og Reagan fyrir rífum 30 árum, náði einkaviðali við þann fyrrnefnda við komu hans til Íslands á meðan öll erlenda pressan trúði því að fjölmiðlabann beggja aðila væri í gangi - og ætti að virða, en Ögmundur var þarna handvalinn af gerskum spunameisturum svo Sovétleiðtoginn gæfi tóninn strax á fyrsta degi.

Hann brosir til vinstri, er örvfættur og örvhentur og hugsar sömuleiðis til vinstri, langt til vinstri, en kveðst þó vera kokteill í hugsun; sósíalisti, anarkísti og frjálslyndur í bland og þessi misxtúra hai gagnast honum vel í því að fylgja sannfæringu sinni á þeim 21 ári sem hann gegndi starfi þingmanns fyrir Alþýðubandalagið og síðar Vinstri græna.

Hann viðurkennir að það hafi myndast vík á milli vina milli hans og formannsins Steingríms J. Sigfússonar í Icesave-málinu og ekki hafi almennilega gróið um heilt á milli þeirra síðan. En það hafi hins vegar verið Landsdómsmálið sem hafi tekið hvað mestan toll á síðari árum hans sem þingmanns og ráðherra, þar hafi hann skipt um skoðun strax og hann sá fáránleika þess að kenna einum manni, Geir H. Haarde, þeim heiðarlega sómamanni, um allt heila efnahagshrunið; þvílík niðurlæging þingheims sem að því stóð, rifjar Ögmundur upp í samtali þeirra Sigmundar Ernis: \"Þetta var níðingsverk,\" svo notuð séu orð hans sjálfs.   

Viðtalsþátturinn Mannamál er frumsýndur öll fimmtudagskvöld klukkan 20:30.