Hræddur en verð að segja þessa sögu

 

Ég ætla að afhjúpa reynslusögu sem legið hefur í þagnargildi allt frá árinu 2002 eða í 13 ár.

Ég hafði verið ráðinn til Ríkisútvarpsins sem fréttamaður, að mig minnir með öllum atkvæðum Útvarpsráðs nema einu. Ég hafði áður gegnt fréttastjórastöðu á dagblaði, hafði aflað mér víðtækrar fjölmiðlareynslu. Taldi mig vel hæfan til að hljóta djobbið þótt margir góðir sæktu um. Og hafði svo vistaskipti, fór úr einkaframtakinu yfir á Rúv.

Tveimur dögum eftir að ég hóf störf hringdi ég í bæjarstjórann á Akureyri, Kristján Þór Júlíusson. Eitthvað var ég að sauma að honum með áleitinni spurningu um álitaefni stjórnsýslu. Í miðju samtali vendir hann um kúrs, skipstjórinn fyrrverandi, og brýtur upp talið. Hann segir mér að leitað hafi verið umsagnar hans fyrir ráðningu, hvort ég ætti að fá fréttamannsstöðuna. Hann sagði ekki hver hefði gert það en á þessum tíma var Útvarpsáð eins og jafnan undir stjórn sjálfstæðismanna. Hann lét mig vita að hann hefði gefið mér gott orð og var ekki hægt að túlka ummælin öðruvísi en sem svo að ég ætti honum persónulega það að þakka að ég hefði fengið stöðuna.

Til að gera langa sögu stuttu sortnaði mér hreinlega fyrir augum. Saklaus sem ég þá enn var vildi ég ekki trúa að svona gerðust kaupin stundum á eyrinni.

Eftir nokkra þögn svaraði ég skjálfraddaður að Kristján Þór hlyti að vita ef hann þekkti mig raunverulega að þessar upplýsingar hlytu að leiða til þess að ég myndi veita honum enn meira aðhald sem stjórnmálamanni en ella. Ekki léti fréttamaður kaupa sig til undirgefni eða þöggunar með slíkum óumbeðnum upplýsingum. Varð fátt milli okkar tveggja lengi og bjagað samband æ síðan.

Nokkru síðar gerði ég fyrstu sjónvarpsfréttina mína með viðtali við Þorstein Má Baldvinsson, forstjóra Samherja. Það var einkennileg reynsla. Ég hafði komið með tökumanni inn á skrifstofu félagsins á Akureyri í fyrsta skipti. Skyndilega bað Þorsteinn Már mig að finna sig inni á skrifstofunni. Tökumaðurinn varð eftir en ég var leiddur inn. Svo hófst yfirheyrsla, hvar ég stæði í pólitík, hvar mínar áherslur lægju, hvað ég væri að hugsa, hvaða skoðanir ég hefði á hinu og þessu? Hann sagðist hafa aflað sér upplýsinga um mig, vissi m.a. að pólitískt bakland foreldra minna væri í Framsóknarflokknum. Þegar ég tók fréttaviðtalið við Þorstein Má 10 mínútum síðar var ég enn með óbragð í munninum. Og hafa æ síðan skipst skin og skúrir milli mín og Þorsteins Más í blaðamennskunni, fleiri eru skúrirnar en skinið þótt ég virði hann fyrir dugnað og útsjónarsemi. Með sama hætti og ég virði Kristján Þór fyrir þá eiginleika sem sterkastir eru í hans fari.

Við erum ekki bara að snakka út í loftið í þessu samhengi. Þorsteinn Már og Kristján Þór eru gamlir fóstbræður. Kristján Þór hefur m.a. setið sem stjórnarformaður Samherja og þess vegna er ekki tilviljun að sagan af þessum tveimur sé nú loks sögð. Ítök gömlu valdaflokkanna tveggja og útgerðarvaldsins eru sérhverjum Íslendingi kunn og velta sífellt upp spurningum um lýðræði. Ræddi mannréttindalögfræðingurinn Katrín Oddsdóttir í síðasta þætti Kvikunnar á Hringbraut tregðu flokksræðisins og útgerðarinnar til breytinga í samfélaginu. Þessi tregða og ákveðin forréttindi sem útgerðin fær úthlutað frá stjórnvöldum væru eitt helsta fótakefli breytinga á stjórnarskránni, færslu aukinna valda til fólksins.

Í Rannsóknarskýrslu Alþingis segir: „Ef þetta gengur ekki fram mun ég persónulega sjá til þess að þér verði ólíft á Íslandi það sem eftir er.“ 

Sú tilvitnun er höfð eftir einum helsta ráðamanni landsins í garð annars sem var ósammála.

Ég er ekki að halda fram að mér hafi verið send svo sterk skilaboð. En hitt var ákveðin frelsun að lesa í Fréttablaðinu í gær þegar Guðmundur Ragnarsson, formaður Félags vélstjóra og málmiðnaðarmanna, sagði að komin væri fram ný tegund af útgerðarmönnum sem hafi í hótunum við sjómenn. Dæmi séu um að mönnum hafi ekki bara verið hótað brottrekstri heldur útilokun um ráðningu hjá öðrum útgerðum innan SFS ef þeir sýndu of mikið sjálfstæði í baráttu. „Við glímum nú við nýja tegund útgerðarmanna. Ég hef ekki kynnst neinu slíku frá því ég byrjaði að vinna við samningagerð,“ segir Guðmundur í samtali við Fréttablaðið og tilgreindi að sjö stórar útgerðir réðu öllu. „Staðan er sú að sjómenn andmæla ekki Þorsteini Má í Samherja, Gunnþóri í Síldarvinnslunni, eða þeim á Höfn eða í Vestmannaeyjum. Þetta er veruleikinn sem við glímum við.“

Kannski tók það þennan formann nokkur ár að manna sig upp í að segja það sem hann hefur lengi hugsað. 13 árum eftir að Kristján Þór Júlíusson núverandi ráðherra gaf til kynna í miðju fréttasímtali, þar sem ég, fulltrúi almannahagsmuna en ekki sérhagsmuna hjá Ríkisútvarpinu, var að spyrja hann ágengrar spurningar, að ég ætti honum gjöf að gjalda, hefur mitt hérahjarta loks orðið tilbúið fyrir næsta takt.

Upphaf allra betrumbóta er að kasta óttanum frá sér. Eða öllu heldur aðhafast og segja frá óeðlilegum þrýstingi ef hann skapast, þótt við séum hrædd. Einhvers staðar las ég að það að vera hræddur en aðhafast samt eins og hjartað og samviskan byði manni væri skilgreining á hugrekki. Því aðhefst ég með þessum pistli, vitandi þó að ráðandi öfl búa yfir ýmsum tækjum til að svipta þá lífsbjörgum sem andæfa ofurvaldinu.

Við verðum að brjóta upp kerfi þöggunar og kúgunar á Íslandi.

Til að það takist verður að kosta til, hætta einhverju. Ef við gerum það ekki endum við um síðir bara með einn valdakjarna í landinu, einn risa sem gín yfir öllu og þar á meðal skoðunum fólksins í landinu.

Óttinn er okkar versti óvinur, segir Gandhi. Það er að láta hann stjórna lífi okkar.

(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á Hringbraut)