Gerræði

Ráðherrar geta ekki breytt ákvörðunum Alþingis. Það er andstætt stjórnarskrá lýðveldisins.


Þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra tilkynnir aðildarríkjum Evrópusambandsins í gær með formlegum hætti að hann hafi einn og sér í krafti ráðherravalds síns ógilt ákvörðun Alþingis Íslendinga um aðildarumsóknina er það gerræði. Um leið er hann að auglýsa á vettvangi þjóðanna hvernig hann  lítilsvirðir löggjafarsamkomu þjóðar sinnar.


Utanríkisráðherra hefur með öðrum orðum lýst því yfir gagnvart alþjóðasamfélaginu að hann hafi svipt Alþingi Íslendinga því valdi sem það hefur með samþykkt ályktana. Það er enginn smá atburður. Ráðherravaldi er beitt til að hafa ályktanir Alþingis að engu.


Hugsum okkur eitt augnablik hver viðbrögð þjóðarinnar yrðu ef erlent ríki vanvirti Alþingi Íslendinga á þennan veg. Það er ekki síður alvarlegt þegar íslenskur ráðherra ógildir ákvarðanir Alþingis upp á sitt eindæmi. Við því er aðeins eitt svar: Að þjóðin standi einhuga gegn valdbeitingu Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra.


Utanríkisráðherrann telur sjálfsagt að hann hafi með þessu vikið öllum deilum um hugsanlega aðild að Evrópusambandinu til hliðar í bili. Ekki er þó víst að honum verði kápan úr því klæðinu. Hitt skiptir öllu máli nú eftir þennan atburð að þjóðin taki höndum saman um að endurheimta ályktunarvald Alþingis.


Hvort sem menn eru hlynntir aðildarviðræðunum eða andvígir þeim geta allir lýðræðissinnar sameinast um að brjóta valdbeitingu utanríkisráðherrans á bak aftur og færa málið inn á Alþingi. 


Vilji ríkisstjórn með ríflegan meirihluta breyta fyrri ákvörðun Alþings getur hún gert það með því að leggja fram tillögu þar að lútandi á þeim sama vettvangi. Þannig eru leikreglur lýðræðisins. En ráðherra getur ekki svipt Alþingi því ályktunarvaldinu með einu bréfi.


Þingmeirihlutinn hefur meira að segja vald til að svíkja kosningaloforðin um að þjóðin sjálf fái að ákveða hvort aðildarviðræðunum verður haldið áfram. Það getur hann gert í atkvæðagreiðslu á Alþingi án tillits til þess hversu ólýðræðislegt það er. Sú  hótun gagnvart þjóðinni hefur nú staðið í meir en ár.


En hitt á að vera óhugsandi í lýðræðisríki að utanríkisráðherrann svíki kosningaloforðin um rétt þjóðarinnar sjálfrar til að gera út um málið með því að fara framhjá Alþingi, æðstu valdastofnun landsins.


Tillögur um vantraust á ráðherra hafa yfirleitt litla þýðingu nema að fyrir liggi að þeir hafi misst traust meirihlutans. En þessi atburður er þess eðlis að það ætti að vera umhugsunarefni fyrir þingmenn stjórnarandstöðunnar að flytja tillögu um vantraust á utanríkisráðherrann.


Slíkt vantraust ætti að sjálfsögðu ekki að snúast um afstöðu hans til Evrópumála. Það hlyti alfarið lúta að gerræði hans gagnvart Alþingi. Ekki er ástæða til að ætla annað en meirihluti þingmanna verji ráðherrann. En það er mikilvægt að skrá nöfn þeirra þingmanna á spjöld sögunnar sem þannig hyggjast styðja með atkvæði sínu að ráðherra geti með einu bréfi svipt Alþingi því ályktunarvaldi sem því er fengið með stjórnarskrá.


Veftímaritið Eyjan gerir því skóna að forseti Íslands hafi lagt á ráðin um þessa aðför að Alþingi. Mikilvægt er að forsetinn geri hreint fyrir sínum dyrum.